Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm smituðust í Ischgl - „Heppinn að ekki fór verr“

22.05.2020 - 12:06
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RUV
Haraldur Eyvinds Þrastarson, sem smitaðist af COVID-19 á skíðasvæðinu Ischgl í Austurríki, segist enn finna fyrir þreytu vegna veikindanna en hann skilji að sumu leyti tregðu yfirvalda til að loka veitingastöðum og börum í skíðabænum. Fimm af átta úr hópi sem Haraldur fór með til Ischgl smituðust. Einn þeirra var í tíu daga á gjörgæsludeild Landspítalans og hann segir heppni að ekki fór verr.

„Við fjölskyldan fórum semsagt í skíðaferð til Austurríkis, til Ischgl, og við fórum út 21. febrúar, tókum eina nótt í Munchen áður en við keyrðum niður til Austurríkis 22. Og við ætluðum bara að njóta þess að vera þarna á skíðum í viku, með vinafólki okkar. Sem við svo sem gerðum, það var ekki fyrr en við komum heim sem við áttuðum okkur á því hvað hafði gerst og hvernig þetta fór allt saman,“ segir Haraldur. 

Grunurinn beinist að flautabarnum

Hann fór að finna fyrir einkennum þegar heim var komið, og hann, eiginkona hans og dóttir voru meðal þeirra fyrstu sem greindust með veiruna hér í byrjun mars. Hann segir þrengslin mikil í Ischgl, bæði í kláfum sem flytja fólk til og frá skíðasvæðunum en einnig á veitingastöðum og börum í bænum, þar sem hann heldur að hann hafi smitast. „Grunurinn beinist náttúrulega að þessum fræga skemmtistað Kitchloch, flautubarnum fræga. Við stoppuðum þar einu sinni, kíktum inn til að upplifa stemninguna og það var náttúrulega bara maður við mann þar og barþjónarnir gangandi um með flauturnar til þess að reka fólk frá þegar þeir komu með bakkana labbandi um staðinn þannig að ég á fastlega von á því að það sé líklegasti staðurinn,“ segir Haraldur. 

Hefur skilning á viðbrögðum í Ischgl

Barþjónn á Kitchloch var sá fyrsti í Ischgl sem veiktist, að því er yfirvöld greindu frá, en talið er að þau hafi vitað af veikindum á svæðinu mun fyrr, alveg frá því um miðjan febrúar en ekki brugðist við. Yfirvöld í Tíról hafa verið gagnrýnd fyrir að bregðast ekki við viðvörunarbjöllum frá Íslandi og rannsókn er hafin á því hvers vegna. „Ég skil nú svo sem að menn vilji fá staðfestingu frá fleiri en einum aðila, þó það sé sóttvarnalæknir á Íslandi. En ég held að það sé náttúrulega heilmikið mál að loka heilu bæjarfélagi sem hefur allt sitt lifibrauð á einu fjögurra mánaða skíðatímabili þannig að þetta er stór ákvörðun en jú vissulega hefði mátt gera hlutina öðruvísi. Og mér sýnist á fjölmiðlum að menn séu að rannsaka þetta ofan í kjölinn þannig að ég hugsa að við fáum bara stóra dóm í því máli fljótlega,“ segir Haraldur. 

Þrjú úr fjölskyldunni veiktust

Hann var veikur í nokkra daga eftir að hann kom heim en segist hafa sloppið vel. En svo var ekki með alla úr hópnum, því fimm af átta úr hópnum sem hann var með úti veiktust, og einn þeirra var lengi á gjörgæslu. „Við vorum þrjú hérna af fjórum í minni fjölskyldu sem greindumst. Og af þessum átta sem vorum saman í íbúð úti þá vorum við fimm sem greindust með COVID. En jú það var einn í hópnum í íbúðinni með okkur, hann endaði inni á gjörgæslu og var þar í eina tíu daga og hann fór bara frekar illa út úr því, var bara heppinn að ekki fór verr held ég.“ 

Keypti bolinn daginn eftir símtalið 

Haraldur segist enn finna fyrir þreytu eftir veikindin en þolið sé að koma. Og hann var bjartsýnn strax eftir að hann greindist að hann myndi sigrast á sjúkdómnum, en hann keypti sér bol með áletruninni, ég sigraðist á kórónuveirunni, strax eftir að hann greindist. „Ég keypti þennan daginn eftir að ég fékk símhringuna um að ég væri smitaður. Ég var svona að vona að ég myndi ekki jinxa þetta, þannig að þetta myndi enda sem líkklæði,“ segir Haraldur. 

Sjö Íslendingar taka þátt í hópmálsókn

Rúmlega 5.500 taka þátt í hópmálsókn gegn austurrískum yfirvöldum og fram á bætur vegna tjóns sem hlaust af veikindunum. Sjö Íslendingar taka þátt en segist ekki vera einn þeirra, því hann var í Ischgl í febrúar en málsóknin nái til þeirra sem voru þar í byrjun mars, eftir að yfirvöld hér á landi vöruðu við veikindum í Ischgl. Prófmál hefjast fyrir austurrískum dómstólum á næstunni en búist er við að það séu mánuðir eða ár þar til niðurstaða liggur fyrir.