Daðafár á Írlandi - Think about things á topp 5

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Daðafár á Írlandi - Think about things á topp 5

22.05.2020 - 14:45

Höfundar

Eurovision-lag Daða Freys og gagnamagnsins er hástökkvari vikunnar á írska smáskífulistanum, fer úr 33. sæti í 4. sæti. Þetta er fyrsta Eurovision-lagið sem kemst á topp tíu á Írlandi í fimm ár. Sá sem síðast gerði það var Mans Zelmerlow með lagið Heroes Það sem gerir árangur Daða Freys enn merkilegri er að það var engin Eurovision-keppni í ár.

Daða Frey og gagnamagninu hafði verið spáð góðu gengi í Eurovision áður en keppninni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. 

Sigurganga lagsins Think About Things hefur engu að síður verið með miklum ólíkindum; lagið hefur unnið hverja óformlegu keppnina af annarri og Hollywood-stjörnur hafa birt myndskeið af sér að stíga Daða-dansinn á samfélagsmiðlum eða tíst um ágæti þess.

Bretar virðast hafa tekið sérstöku ástfóstri við Daða. Breska blaðið Evening Standard segir umræðuna um hvort lag hans hefði unnið keppnina eða ekki líkjast algengum rökræðum um hver sé besti knattspyrnumaðurinn sem aldrei spilaði á HM. Eða hvaða kylfingur skaraði fram úr en vann aldrei stórmót. 

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að 8,1 milljón hafi horft á myndbandið við lagið á YouTube og laginu hefur verið streymt 10,2 milljón sinnum á Spotify.  Daði upplýsir í viðtali við Standard að til séu tveir textar við lagið; annar á ensku en hinn á íslensku. Sá fyrrnefndi er óður til dóttur hans en sá síðarnefndi segi frá geimveruhljómsveit sem kemur til jarðar og reynir að bjarga heiminum með nýjum dansi. Hann sér ekki eftir því að hafa veðjað á enska textann.

Daði hefur nú sent frá sér nýtt lag en er salírólegur yfir miklum vinsældum Think about things. „Ef það verður mitt vinsælasta lag en ég get haldið áfram að búa til tónlist þá er það bara flott. Það að Eurovision skyldi vera aflýst eyðilagði ekki allt. Við gátum bara ekki haldið gott partý.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Jennifer Garner þvær þvott með Daða

Tónlist

Glænýtt lag Daða og fjórðubekkinga

Menningarefni

Daði sló í gegn í Ástralíu

Menningarefni

Daði og Gagnamagnið fengu langflest stig frá Norðmönnum