Um helmingur hópsins smitaðist á kóræfingu

21.05.2020 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: Sönghópurinn Spectrum - Facebook
Næstum helmingur þeirra sem mættu á kóræfingu hjá sönghópnum Spectrum í byrjun mars smitaðist af COVID-19 á æfingunni. Kórstjórinn telur að smitið hafi mögulega borist milli manna af tekönnu.

Fyrir tíma samkomubanns

Kóræfing sönghópsins Spectrum þann 10. mars síðastliðinn líður þeim líklegast seint úr minni, en um helmingur hópsins greindist með COVID-19 í kjölfarið og hinn helmingurinn þurfti að fara í sóttkví. Ingveldur Ýr Jónsdóttir, stjórnandi kórsins, segir að smitið hafi verið rakið til kóræfingarinnar en ómögulegt sé að segja til um hver hafi smitað hvern. „Þegar að veiran var í vaxandi mæli að koma til landsins - samt ekki þannig að það væri komið  samkomubann eða tveggja metra regla - þá höldum við æfingu þar sem að er óvenju góð mæting, það mæta 19 manns á hana, og eftir hana eru átta manns komnir með veiruna,“ segir Ingveldur. Þetta er þriðjungur allra úr kórnum. 

„Þarna vorum við samt ekki að heilsast eða faðmast,“ segir Ingveldur, sem grunar að tekanna sé sökudólgurinn. „Það er mögulega ein tekanna, sem allir snertu, sem hefur verið sameiginlegur snertiflötur.“

Mörg dæmi erlendis um smit á kóræfingu 

10. mars voru 82 virk smit í samfélaginu, og flest þeirra tengd fólki sem kom til landsins af skíðasvæðum í Ölpunum. Smitið hjá kórnum kom þeim því töluvert á óvart. Ingveldur segir þó fleiri dæmi til um hópsmit meðal kóra erlendis. Það geti til dæmis stafað af því að fólk sitji þétt í lokuðu rými. „En það sem gerist í söng er að það er miklu meiri fráöndun. Sú fráöndun skapar bara meiri hættu,“ segir Ingveldur. Þetta geti sérstaklega átt við í upphitun. Núorðið hefur hún minnst fjóra metra á milli söngvara á æfingum.

Allir farnir að syngja aftur

Kórinn er aftur farinn að syngja saman, og flutti lög fyrir starfsfólk Landspítala á dögunum, í beinni útsendingu á netinu. Þannig vildi kórinn þakka spítalanum fyrir veitta aðstoð í veikindum kórfélaganna. 
Sumir innan kórsins veiktust illa, en þeim er nú öllum batnað. „Það eru allir á lífi, það eru allir uppistandandi, allir farnir að syngja, og við erum bara mjög þakklát fyrir það,“ segir Ingveldur.

 

Sönghópurinn Spectrum þakkaði starfsfólki Landspítala fyrir hjálp í Covid-19 faraldrinum með því að syngja við upphaf...

Posted by Landspítali on Wednesday, 20 May 2020

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi