Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reikna út áhrif COVID-19 á ríkissjóð

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Unnið er að því í fjármálaráðuneytinu þessa dagana að gera nýjar áætlanir um tekjur, útgjöld og afkomu ríkissjóðs í ár. Áætlanirnar sem fjárlög ársins byggðu á fóru fyrir lítið þegar efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins fór að gæta. Að auki hefur ríkissjóður gripið til ýmissa aðgerða til að létta efnahagsáfallið.

Í gær birtu stjórnvöld niðurstöður úr yfirferð á þeim aðgerðum sem þegar hefur verið ráðist í. Bein útgjöld vegna þeirra eru ríflega hundrað milljarðar og fyrirtæki geta frestað fram á næsta ár greiðslu skatta upp á 95 milljarða króna.

Fréttastofa sendi fyrirspurn á fjármálaráðuneytið og spurði hvaða breytingum væri gert ráð fyrir á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs í ár. Samkvæmt svari ráðuneytisins er nú unnið að því að reikna út hversu mikið breytist. Þar segir að efnahagsþróunin og þær mótvægisaðgerðir sem stjórnvöld hafa hrundið í framkvæmd spili saman og móti þróun skattstofna ríkisins og þær forsendur sem liggi til grundvallar áætlunum um þá. Fjármálaráðuneytið stefnir að því að kynna á næstunni frekari sviðsmyndir og þá ætti að skýrast nokkuð hversu mikil áhrif kórónuveirufaraldurinn hefur á ríkisfjármálin í ár.