Rannsókn lokið á þyrluhrapi Ólafs Ólafssonar

21.05.2020 - 18:08
Flak þyrlu Ólafs Ólafssonar sem brotlenti skammt frá Nesjavöllum.
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir tvennum tilmælum til flugmanna eftir að hafa lokið rannsókn á flugslysi þar sem þyrla Ólafs Ólafssonar athafnamanns hrapaði. Flugmenn eru annars vegar hvattir til þess að gæta sérstaklega að sér þegar þeir fljúga mismunandi tegundum loftfara og hins vegar eru þeir minntir á mikilvægi þess að afla alltaf veðurupplýsinga og reikna út þyngd flugfars.

Þyrlan TF-ZOO hrapaði á Hengilssvæðinu 22. maí 2016. Fimm voru um borð og urðu töluverð meiðsl á fólki. Þyrlan var í eigu Ólafs Ólafssonar sem var í útsýnisflugi ásamt þremur erlendum viðskiptafélögum sínum og var flugmaður fimmti maðurinn um borð. Slysið vakti meðal annars athygli fyrir þær sakir að Ólafur afplánaði á þessum tíma fangelsisdóm vegna Al Thani málsins og var á þessum tíma í útivist frá Vernd.

Flugmaðurinn hafði flogið inn dalinn í lítilli hæð og var í um tólf til fimmtán metra hæð þegar hann ætlaði að snúa þyrlunni fyrir lendinguna. Hann hafði ekki fulla stjórn á stélþyrli þyrlunnar sem snerist í einn og hálfan hring, missti hæð og skall í jörðina. Eldur kviknaði í öðrum hreyflinum við lendinguna. 

Reyndur flugmaður

Flugmaðurinn hafði um 1.700 tíma reynslu af flugi en aðeins 40 tíma við stjórn þyrlu af þeirri tegund sem hrapaði fyrir fjórum árum. Þyrlunni svipaði mjög til annarra þyrla sem hann hafði flogið áður. Sá var þó munurinn að þyrlan sem hrapaði var með tvo hreyfla en hinar aðeins einn. 

Í skýrslu rannsóknarnefndar segir að þyrlurnar séu ólíkar hvað varðar beitingu stjórnvala til þess að hafa fulla stjórn á stéli við þær aðstæður sem voru uppi þegar þyrlan hrapaði. „RNSA telur líklegt að flugmaðurinn hafi ekki verið nægilega ákveðinn við stjórn þyrlunnar ásamt því að vanmeta veðurskilyrði við fjalllendið með þeim afleiðingum að hann hafði ekki fulla stjorn á stéli hennar,“ segir skýrsluhöfundur. „Þar sem þyrlan var nálægt jörðu reyndist ekki unnt að ná fullri stjórn á stéli hennar þegar hún byrjaði að snúast með þeim afleiðingum að þyrlan skall í jörðina. RNSA útilokar ekki að áhrif vinds á stélþyril þyrlunnar hafi verið meðverkandi þáttur í slysinu.“

Í skýrslu rannsóknarnefndar segir að flugmaðurinn hafi ekki gert þyngdarútreikninga fyrir flugið heldur áætlað að þyngd þyrlunnar væri innan marka. Svo reyndist vera. Hann taldi veðrið gott og aflaði ekki veðurupplýsinga sérstaklega. Hæglætisvindur var í fluginu og taldi flugmaðurinn að við slysstaðinn hefði vindur verið undir sjö hnútum, sem er gola. Þrettán hnúta vindur, og sextán til átján hnúta hviður, voru á Skarðsmýrarfjalli á þessum tíma en sá staður er fimm kílómetra frá slysstað. Þetið er fram í skýrslunni að þar sem svæðið er í fjalllendi megi ætla að vindstyrkur hafi verið breytilegur.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi