Ólympíuleikunum aflýst fari þeir ekki fram næsta sumar

epa08434884 (FILE) - The Olympic Rings monument in front of the Japan Olympic Committee headquarters in Tokyo, Japan, 24 March 2020 (reissued 21 May 2020). International Olympic Committee President Thomas Bach said on 20 May that the postponed Tokyo 2020 Games shall be cancelled if they cannot be held in 2021 due to the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Ólympíuleikunum aflýst fari þeir ekki fram næsta sumar

21.05.2020 - 13:00
Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, segir að fari svo að Ólympíuleikarnir í Tókýó geti ekki farið fram á tilsettum tíma næsta sumar verði þeim aflýst.

Ólympíuleikarnir í Tokýó áttu að hefjast 24. júlí næst komandi en var frestað um ár vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19. Það lá ljóst fyrir af hálfu japanskra yfirvalda að þegar ákveðið var að fresta leikunum um ár að frekari frestanir kæmu ekki til greina.

„Í viðræðum við forsætisráðherrann Abe sem leiddi til frestunarinnar setti hann mjög skýrt fram að sumarið 2021 væri síðasti séns til að halda leikana. Ég hef skilning á því þar sem það gengur ekki að hafa 3000 til 5000 starfsmenn í vinnu í skipulagningsnefnd að eilífu. Það er ekki hægt að umturna íþróttadagatali allra alþjóðlegu íþróttasambandanna árlega og þá er ekki hægt að bjóða íþróttafólkinu upp á slíka óvissu,“ segir Bach í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC.

Bach segir í viðtalinu að endurskipulagning leikanna sé heljarinnar vinna. Alþjóðaólympíunefndin sé að finna upp hjólið á hverjum einasta degi þar sem engar áætlanir hafi verið fyrir hendi um hvernig ætti að takast á við svona heimsfaraldur.

„Þetta er gríðarstórt verkefni og það eru engar áætlanir til staðar eða fordæmi fyrir slíku. Við þurfum að finna hjólið upp á hverjum degi í starfinu sem við erum að vinna. Svo þetta er mjög krefjandi en á sama tíma mjög heillandi að hafa þetta tækifæri,“ segir Bach.

Bach segir jafnframt að leikarnir á næsta ári geti orðið frábrugðnir þeim síðustu ára vegna aðstæðna. Lögð verði rík áhersla á heilsu allra sem að þeim koma.

Aldrei áður hefur Ólympíuleikum verið frestað en þeim hefur verið aflýst á stríðstímum. Bach segir leikana að ári geta orðið einstaka. Geti þeir „sent skilaboð samstöðu um allan heim, að fólk komi saman á ný og fagni sigrinum á kórónuveirunni,“.

epa05502173 IOC President Thomas Bach speaks during a press conference at the Main Press Centre at the Rio 2016 Olympic Games in Rio de Janeiro, Brazil, 20 August 2016.  EPA/ORLANDO BARRIA
 Mynd: RUV
Thomas Bach.