Gleði og sorg í sögum berklasjúklinga

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjar Karl Óttarsson

Gleði og sorg í sögum berklasjúklinga

21.05.2020 - 09:43

Höfundar

Berklar voru þjóðarmein í upphafi 20. aldar. Árið 1927 var berklahæli reist að Kristnesi í Eyjafirði. Hælið varð örlagavaldur í lífi fólks, griðarstaður og heimili, en einnig afplánun og endastöð. Frásagnir fólksins sem dvaldist þar lifna nú við í útvarpsþætti.

Í þættinum Kristneshæli – Musteri lífs og dauða er sögð saga fólksins sem dvaldist í einangrun á Kristneshæli á tímum berklanna, saga sem spannar rúm 30 ár. Það er sagnfræðingurinn Brynjar Karl Óttarsson sem á hugmyndina að þættinum. „Ég upplifi svolítið eins og við séum að fara með hlustendur í tímaferðalag. Þeir fá að vera flugur á vegg og taka þátt í gleði og sorg þeirra sem dvöldust á Hælinu. Og sögurnar í þættinum eru raunverulegar, að miklu leyti fengnar frá fólki sem ég tók viðtöl við þegar ég vann að bók sem þátturinn er byggður á,“ segir Brynjar. 

Upplifði eftirköst berklanna

Saga þeirra sem börðust við berkla hefur lengi verið Brynjari hugleikin enda ólst hann upp við að heyra sögur um lífið á Hælinu. „Ég ólst upp í Kristnesþorpi á 8. og 9. áratugnum og náði þannig að upplifa eftirköst berklanna á Kristneshæli. Sem barn man ég eftir vistfólki á Hælinu sem hafði þá dvalist þar í ár og jafnvel áratugi. Það hálfpartinn dagaði þar upp. Pabbi var líka vistmaður á Hælinu sumarlangt og fleiri í ættinni minni,“ rifjar hann upp. 

Margir að opna sig í fyrsta skipti

Þátturinn er byggður á bókinni Í fjarlægð - Saga berklasjúklinga á Kristneshæli, sem Brynjar gaf út árið 2017. Í nokkur ár, upp úr síðustu aldamótum fór Brynjar ásamt bróður sínum Rósberg í ferðalög um landið við að afla heimilda fyrir útgáfu bókarinar. Þeir fóru á söfn og hittu fjölmarga fyrrverandi vistmenn og starfsmenn Hælisins á heimilum þeirra. Þessar heimsóknir eru Brynjari afar minnisstæðar. 

„Okkur var alls staðar vel tekið, alltaf bakkelsi tilbúið á eldhúsborðinu og kaffi í því fínasta stelli sem til var á heimilinu. Þarna mættum við með gamalt upptökutæki og söfnuðum ómetanlegum heimildum sem eiga sér enga hliðstæðu eftir því sem ég best veit. Flestir sem við hittum áttu það sameiginlegt að vera í fyrsta skipti að opna sig um dvölina á Hælinu,“ segir Brynjar.

Mynd: Minjasafnið á Akureyri / Minjasafnið á Akureyri
Hér má heyra brot úr þættinum Kristneshæli - Musteri lífs og dauða. Mynd: Minjasafnið á Akureyri

Finnur fyrir fólkinu á bak við sig

Brynjar segir að í hugum margra tilheyri berklar fortíðinni sem og fólkið sem stóð í baráttunni gegn þeim. Hann segir að við megum þó ekki gleyma sögunni. „Ég hef stundum sagt að eftir kynni mín af fólkinu á Hælinu, oft í gegnum gamlar skruddur og skjöl, finnst mér ekki lengur eins og um bláókunnugt fólk sé að ræða. Frá byrjun hef ég haft á tilfinningunni að blessað fólkið, sem hlaut þetta raunalega hlutskipti og er nú löngu horfið af sjónarsviðinu, standi við bakið á mér og hvetji mig til að segja sögu þess. Ég veit ekki hversu mikil vísindi eru á bak við það en í þessu felst ákveðinn drifkraftur. Þar fyrir utan er sagan stórmerkileg og á erindi við okkur öll, ekki síst þessa dagana.“

Brynjar býr í dag ásamt fjölskyldu sinni á Akureyri en fer reglulega á æskuslóðirnar. „Ég er enn þá með annan fótinn á Kristnesi þar sem ég hef vinnuaðstöðu í sama húsnæði og María Pálsdóttir opnaði setur um sögu berklanna síðasta sumar. Þar dunda ég mér við að skrá sögur af ýmsu tagi og miðla þeim áfram til áhugasamra.“

Kristneshæli - Musteri lífs og dauða er á dagskrá Rásar 1 á uppstigningardag kl. 13.    

Tengdar fréttir

Bolungarvíkurkaupstaður

Náði sér af COVID-19 í tæka tíð fyrir 103 ára afmælið

Norðurland

Draumurinn um berklasetur orðinn að veruleika

Innlent

Starfsmaður skóla greindist með berkla

Menningarefni

Berklasjúklingar upplifðu oft höfnun