Flugfreyjufélagið segir Boga Nils brjóta lög

21.05.2020 - 22:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sendi flugfreyjum og flugþjónum félagsins tölvupóst í kvöld með upplýsingum um tilboð Icelandair til Flugfreyjufélagsins. Þar segir hann að það sé í samræmi við stefnu fyrirtækisins um góða upplýsingagjöf til samstarfsfólks. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands segir Boga gerast sekan um að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur og reyna að sniðganga félagslega forystu sem félagsmenn hafi valið til að gæta hagsmuna þeirra.

Hún segir í færslu á Facebook að hún skilji að félagsmenn séu óttaslegnir yfir stöðunni. Hún biður þá þó um að hafa fyrirvara á þeim samanburði sem Bogi setur fram og bíða frekar átekta eftir upplýsingum um innihald viðræðna frá samninganefndinni. 

Tilboðið sýnt nánast lið fyrir lið

Bogi Nils útlistar nokkuð nákvæmlega hvað nýjasta tilboð Icelandair inniheldur. Jafnframt tekur hann fram að fyrirtækið hafi einungis verið í viðræðum við FFÍ en ekki önnur stéttarfélög flugfreyja og flugþjóna. Hann segir að margt í umræðu undanfarinna daga sé til þess fallið að skapa tortryggni gagnavart fyrirætlunum Icelandair. Sumt af því sé í besta falli mikill misskilningur. Fyrirtækið verði að leiðrétta það sem ranglega hefur verið haldið fram og því sé stjórnin „tilbúin til að sýna hverjum sem er úr hópi flugfreyja og flugþjóna samningstilboðið í heild sinni."

Flugfreyjur funda á Hilton á morgun

Guðrún Líney bendir á í mótsvari sínu á Facebook að forseti ASÍ sendi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins bréf fyrir nokkru þar sem gerðar voru athugasemdir við framgöngu forstjóra Icelandair. Þá var þess krafist að SA og Icelandair fari að reglum á vinnumarkaði „og láti af þeim hroka og vanvirðingu sem í þessu felst."

Flugfreyjufélagið verður með félagsfundaröð á morgun þar sem upplýsingum um framgang viðræðna verður deilt til félagsmanna. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður fundur félagsins á Hilton, sama stað og hluthafafundur Icelandair verður haldinn.