Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bíl ekið inn í verslun í Sydney

21.05.2020 - 07:29
Mynd með færslu
Sydney, stærsta borg Ástralíu. Mynd: nn - wikipedia
Tólf var veitt aðhlynningu eftir að maður ók bíl inn í verslun í Sydney sem selur andlitsslæður. Ökumaðurinn og ellefu vegfarendur slösuðust í atvikinu. Samkvæmt lögreglu hafði bílstjórinn ekið bílnum sínum aftan á aðra bifreið á umferðarljósum fyrir framan búðina.

Miðað við myndbönd sem birt voru á samfélagsmiðlum virðist ökumaðurinn gera sig tilbúinn til að aka á fullri ferð frá umferðarljósunum og á búðina. 

Guardian hefur eftir lögreglu að flestir hinna slösuðu séu konur á aldrinum 18 til 30 ára. Þær voru allar inni í versluninni þegar bílnum var ekið inn í hana. Lögreglan segir ekkert benda til þess enn sem komið er að þetta hafi verið hryðjuverk. Viðbragðsaðilar telja áverka hinna slösuðu ekki vera lífshættulega. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV