Think About Things með tíu milljón hlustanir á Spotify

Mynd: Barnamenningarhátíð / .

Think About Things með tíu milljón hlustanir á Spotify

20.05.2020 - 13:13

Höfundar

Á mánudag kom út lagið Hvernig væri það? sem Daði Freyr samdi sérstaklega fyrir Barnamenningarhátíð í Reykjavík en viðburðir á hennar vegum eru haldnir frá 4. maí til 15. ágúst. Vinsældir Think About Things ætla svo engan endi að taka en því hefur verið streymt meira en tíu milljón sinnum á Spotify.

Texta Hvernig væri það? vann Daði upp úr tillögum frá krökkum úr 4. bekk reykvískra grunnskóla. Í tillögum krakkanna kenndi ýmissa grasa. „Það var talað um Trump og svona, en ég vildi ekki vera alveg svo bókstaflegur. Þemað á hátíðinni var að passa upp á jörðina svo ég valdi mest orð og setningar sem pössuðu við það,“ sagði Daði Freyr þegar Mannlegi þátturinn sló á þráðinn til hans í Berlín þar sem hann býr. Lagið hafði hann samið áður og raðaði svo textabrotunum við. „Ég bjó til hrúgu af lögum sem ég valdi síðan úr þegar ég var að gera Think About Things. Þetta er eitt af þeim sem kom til greina að vera Eurovision-lagið.“

Daði Freyr segir að þrátt fyrir að Think About Things hafi ekki tekið þátt í Eurovision hafi miklar vinsældir þess haft ómæld áhrif. „Þetta er búið að breyta lífi mínu. Ef ég spila með þetta rétt gæti ég unnið við að búa til eigin tónlist og spila fyrir fólk um ókomin ár. Þó að Eurovision hafi átt að vera á laugardaginn þá heldur þetta áfram. Jennifer Garner var að setja inn myndband og Ariana Grande er búin að kommenta á það. Þetta hættir ekki.“ Daði er nú búinn að setja saman þriggja manna hljómsveit til að túra með sér í lok sumars. „Við erum búin að selja upp tvisvar í röð á sama venue-ið í London og Dublin. Svo erum við að spila í Þýskalandi, Noregi, Hollandi, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi og út um allt. Svo var lagið að detta í tíu milljón hlustanir á Spotify í gær,“ segir Daði rogginn.

En mun hann keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision á næsta ári? „Ekki svo ég viti. Ég bara er að bíða eftir svari frá RÚV. Ég myndi taka þátt og Gagnamagnið með en við förum ekki aftur í Söngvakeppnina. Við ætlum aðeins að vera prímadonnur með þetta.“ Lagið sem Daði samdi fyrir Barnamenningarhátíð átti upprunalega að vera frumflutt í Hörpu en þeim viðburði var aflýst eins og svo mörgum öðrum. „Í staðinn verð ég með streymistónleika héðan úr stúdíóinu mínu. Ég ætla bara að spila lögin mín og kannski semja eitthvað í beinni ef ég verð í stuði,“ segir Daði. Mannlegi þátturinn heyrði í honum í gær en hér má sjá tónleikana sem voru í morgun.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Daði sló í gegn í Ástralíu

Popptónlist

Daði flytur Hatrið mun sigra

Menningarefni

Daði og Gagnavagninn á ferð um borgina

Tónlist

Hot Chip endurhljóðblandar Daða og Gagnamagnið