Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stýrivextir lækkaðir niður í eitt prósent

20.05.2020 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentustig. Meginvextir bankans verða því eitt prósent og hafa aldrei verið lægri.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans eru horfur á 8% samdrætti landsframleiðslu í ár, en þar vegur þyngst að ferðamönnum fækkar um yfir 80%. Þá er búist við að atvinnuleysi aukist mikið og fari í um 12% á þriðja fjórðungi ársins en verði tæplega 9% á árinu öllu.

Bankinn spáir því að efnahagslífið færist smám saman í eðlilegt horf á næsta ári og að hagvöxtur verði 5%. Þó er bent á að óvissan er óvenju mikil og þróun efnahagsmála mun ráðast af framvindu farsóttarinnar og því hvernig tekst til við að vinda ofan af sóttvarnaraðgerðum.

Verðbólga mældist 2,2% í apríl og hefur verið undir markmiði bankans frá því í desember. Verðbólguvæntingar hafa lítið breyst þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn, en gengi krónunnar hefur lækkað frá því faraldurinn barst til landsins. Samkvæmt spá Seðlabankans eykst verðbólga lítillega á næstu mánuðum vegna áhrifa gengislækkunar krónunnar, en horfur eru á að verðbólga verði undir 2% á seinni hluta spátímans. 

Þá hefur bankinn ákveðið að hætta að bjóða upp 30 daga bundin innlán. Felur það í sér að meginvextir bankans verða virkari og vaxtaskilaboð bankans skýrari, að sögn bankans.