Stjórnvöld þurfi að jafna leikinn

Mynd: RÚV / RÚV

Stjórnvöld þurfi að jafna leikinn

20.05.2020 - 19:45
Streymisveitan Viaplay hóf innreið sína á íslenskan sjónvarpsmarkað í mars. Um liðna helgi hóf veitan beinar útsendingar frá þýska fótboltanum á Íslandi. Íþróttastjóri Viaplay segir stefnuna að vaxa og dafna á Íslandi. Forstjóri Sýnar segir að það verði að setja Viaplay sömu skorður og íslenskum fyrirtækjum eru settar ef samkeppnin á að vera jöfn.

Viaplay er í eigu sænska fjölmiðlarisans NENT og streymir efni á Norðurlöndunum og Englandi. Fyrirtækið er hið stærsta í íþróttaefni á Norðurlöndunum og hefur nú bætt Íslandi í hópinn.

„Landið er með öfluga tengingu við internetið og breiðbandið þar er útbreitt, efnahagurinn er góður, og almenningur er reiðubúinn að kaupa áskrift svo að við teljum markaðinn fýsilegan og því snúum við okkur að honum. Og ekki aðeins til að vera þar heldur teljum við okkur hafa eitthvað upp á að bjóða og sömuleiðis fá eitthvað út úr því. Það er ástæðan.“ segir Kim Mikkelsen, íþróttastjóri Viaplay.

Fyrst um sinn mun Viaplay sýna beint frá þýska fótboltanum og svo bætist Formúla eitt við í sumar þegar keppni hefst þar. Næsta vetur bætist svo þýski handboltinn við og danskur, sænskur og hollenskur fótbolti. Annars staðar á Norðurlöndunum á Viaplay réttinn á enska fótboltanum og Meistaradeild Evrópu en Kim vill ekki staðfesta að fyrirtækið ætli sér líka að eignast þann rétt á Íslandi.

„Almennt get ég sagt að við viljum efla Viaplay á Íslandi og láta finna þar fyrir okkur. Allt sem stuðlar að því, að komast í þá stöðu, er áhugavert í okkar augum. Svo að sýningarréttur á efni og íþróttaefni skiptir máli að því leyti. En ég biðst undan því að tjá mig um skilgreindan sýningarrétt sem við höfum ekki en almennt get ég sagt að allt efni sem vekur áhuga og skiptir viðskiptavini máli er einnig til skoðunar hjá okkur.“ segir Mikkelsen.

Allir skuli sitja við sama borð

Um fimmtán prósent útsendinga Viaplay hér á landi verða með íslenskri lýsingu. Það segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, að skekki aðstöðu íslenskra fyrirtækja í samkeppni við Viaplay.

„Það er alltaf gott að fá samkeppni en grunnur að svona eðlilegum samkeppnisrekstri er að það sitji allir við sama borð og það er svo sannarlega ekki tilfellið varðandi Viaplay, því miður.“ segir Heiðar og bætir við:

„Ég meina, þeir þurfa ekki að talsetja, þeir þurfa ekki að lýsa með íslenskum lýsendum, þeir þurfa ekki að gangast við þessum reglum sem íslenskir fjölmiðlar eru settir undir, vegna þess að við höfum svona menningarhlutverki að gegna. Manni finnst skjóta skökku við ef menntamálaráðuneytið, núna með nýtt fjölmiðlafrumvarp, tekur ekki á þessu.“

Nú eru beinar útsendingar á streymisveitum svolítið nýmæli hér, þó að kannski þáttaraðir og bíómyndir hafi verið í svolítinn tíma. Heldurðu að þetta sé kannski bara spursmál um tíma, að yfirvöld svona nái aðeins utan um þennan nýja veruleika?

„Við erum að minnsta kosti alveg búin að kynna þetta fyrir ráðherra og yfirvöldum og þeim er algjörlega ljóst hver staðan er. Nú er það þeirra að jafna leikinn.“ segir Heiðar.

Ummæli þeirra Mikkelsens og Heiðars má sjá í spilaranum að ofan.