Pipar/TBWA kærir Ríkiskaup

20.05.2020 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Auglýsingastofan Pipar/TBWA hefur kært Ríkiskaup til kærunefndar útboðsmála fyrir að ganga að tilboði bresku auglýsingastofunnar M&C Saatchi í markaðsátak stjórnvalda til landkynningar á Íslandi í kjölfar COVID-19.

Verkefnið kallast „Ísland – saman í sókn“ og er ætlað að kynna Ísland sem ferðamannastað á erlendum mörkuðum. 

Í kærunni fer Pipar fram á að Ríkiskaupum verði gert að stöðva fyrirhugaða samningsgerð sína við M&C Saatchi á meðan kærunefndin tekur fyrir kæruna. Sömuleiðis er þess krafist að ákvörðun Ríkiskaupa um að ganga til samninga við  M&C Saatchi verði felld úr gildi og gengið að tilboði Pipar/TBWA. Pipar/TBWA fer  einnig fram á að Ríkiskaup standi straum af málskostnaði. 

Pipar/TBWA segir í kærunni að eftir alvarlega ágjöf í íslenskri ferðaþjónustu vegna heimsfaraldursins hafi stjórnvöld ákveðið að ráðast í markaðsátak. Ríkiskaup hafi sett af stað útboð sem hafi sætt flýtimeðferð. Við mat á tilboðum var tekið tillit til þriggja þátta sem vógu mismikið.

Niðurstaða valnefndar var að M&C Saatchi hlaut 0,82 stigum meira en Pipar/TBWA. M&C Saatchi hefði skilað hagstæðasta tilboðinu samkvæmt skilyrðum útboðsgagna. 

Pipar/TBWA telur hinsvegar að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup, meðal annars gegn jafnræðisreglu laganna og horft fram hjá sérstöku hæfi M&C Saatchi sem auglýsingastofan telur að hefði átt að útiloka fyrirtækið í útboðinu. Fyrirtækið sé til rannsóknar vegna fjármálamisferlis í Bretlandi og í lögum um opinber innkaup sé heimild til að útiloka fyrirtæki hafi fyrirtæki til dæmis sýnt alvarlega vanrækslu í starfi.

Þá sé fyrirtækið ekki virðisaukaskattskylt á Íslandi og þurfi ekki að standa skil á virðisaukaskatti af þjónustu hér á landi eins og íslenskar auglýsingastofur og það skekki samkeppnisstöðu.

Í útboðsgögnunum á vef Ríkiskaupa kemur fram að þeir verði útilokaðir frá útboði sem hafi hlotið dóm.  Einnig kemur þar fram að tilboð verði að taka virðisaukaskatt með í reikninginn.

Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, sagði í fréttum RÚV í liðinni viku að Íslandsstofa, sem kaupir þjónustuna, þurfi að gera upp virðisaukaskattinn við skattayfirvöld hér á landi. Hafi breska auglýsingastofan misskilið þetta og gefið upp verð án virðisauka í tilboði sínu verði hún að lækka upphæðina sem nemur virðisaukaskattinum þegar hún sendir reikninginn.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV