Ósammála aðgerðum eftirmanns síns

20.05.2020 - 00:53
epa08357021 People sit outside in the sun trying to keep social distance after calls from the authorities on Easter weekend in central Stockholm, Sweden, 11 April 2020, during spring weather. Countries around the world are taking measures to contain the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/Anders Wiklund  SWEDEN OUT
Fólki hefur ekki verið bannað að vera á ferli í Svíþjóð eins og nokkrum öðrum Evrópulöndum. Mynd: EPA-EFE - TT
Annika Linde, fyrrverandi sóttvarnarlæknir Svíþjóðar, segist hafa efasemdir um aðgerðir núverandi yfirvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Hún hefur sérstakar áhyggjur af stöðunni á hjúkrunarheimilum, sem hún segir ekki hafa verið búin undir slíkan faraldur. 

Danska ríkisútvarpið, DR, hefur þó eftir henni að hún hafi í fyrstu verið á þeirri skoðun að sænska leiðin væri sú rétta. Nú segist Linde hins vegar ekki sjá að leiðin geti gengið til langframa. Hún segir það fjarri því nóg að banna heimsóknir og minna á handþvott. Miklu meira hafi þurft til með tilliti til smithættu vegna þess fjölda starfsmanna sem vinna við hjúkrun aldraðra. Of lítið hafi verið gert úr vandanum að hennar mati. 

Linde segir að aukin sýnataka gæti hafa fækkað dauðsföllum. Mikil skimun í nágrannalöndunum hafi haldið faraldrinum niðri. Yfir 3.700 eru látnir í Svíþjóð og rúmlega 30 þúsund hafa greinst smitaðir. Alls eru nærri 373 látnir af völdum COVID-19 af hverjum milljón íbúum í Svíþjóð. Í Danmörku er fjöldinn 95 og 43 í Noregi. Um helmingurinn af dauðsföllunum vegna COVID-19 í Svíþjóð hefur orðið á hjúkrunarheimilum. 

Viðurkennir mistök

Linde segir líklega full seint að grípa til svipaðra aðgerða og nágrannalöndin. Aðgerðir Svía hafa vakið talsverða athygli víða um heim. Þeir hafa reynt að halda sem mestu opnu, og nánast einungis reynt að halda sig við tveggja metra fjarlægðarmörk. Barir, grunnskólar og líkamsræktarstöðvar hafa haldist opin. Sjálfur hefur Andreas Tegnell, núverandi sóttvarnarlæknir í Svíþjóð, viðurkennt að yfirvöld hafi ekki gert nóg til að vernda eldra fólk á hjúkrunarheimilum. Stefna yfirvalda hafi alltaf verið að koma í veg fyrir að smit breiddist út meðal eldri borgara, en enginn hafi gert sér grein fyrir því hversu auðvelt veiran átti með að breiðast út inni á hjúkrunarheimilum, hefur DR eftir honum.