Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Netanyahu ber að mæta fyrir rétt

20.05.2020 - 17:34
Mynd með færslu
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Mynd:
Dómstóll í Jerúsalem hefur synjað beiðni Benjamins Netanyahus forsætisráðherra um að fá að sleppa við að mæta fyrir rétt á sunnudag þegar honum verða formlega birtar ákærur vegna spillingarmála.

Lögmenn ráðherrans fóru fram á að hann þyrfti ekki að mæta, þar sem dómþingið á sunnudag væri einungis formlegs eðlis. Þar að auki þyrfti hann að hafa með sér fimm lífverði. Þar með væri ljóst að þrengslin í dómsal væru orðin slík að ekki væri hægt að virða fjarlægðartakmarkanir sem eru í gildi vegna COVID-19 farsóttarinnar. Í beiðninni til dómstólsins halda lögmennirnir því fram, að sögn AFP fréttastofunnar, að krafan um nærveru Netanyahus forsætisráðherra sé fjölmiðlaherferð ákæruvaldsins, sem vilji sýna hann á sakamannabekknum.

Beiðni Netanyahus synjaði umdæmisdómstóllinn í Jerúsalem í dag með þeim rökum að ekki sé hægt að rétta yfir fólki sem ákært fyrir brot á refsilögum að því fjarstöddu. Embætti ríkislögmanns hefur einnig farið fram á að forsætisráðherra verði viðstaddur á sunnudaginn kemur.

Netanyahu þarf að svara til saka fyrir fjármálaspillingu, umboðssvik og mútuþægni.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV