Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nær engin hreyfing á Keflavíkurflugvelli

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV
Fáar farþegaþotur taka á loft frá Keflavíkurflugvelli þessa dagana vegna heimsfaraldurs COVID-19 og fáar koma til landsins. Mannlausar farþegaþotur bíða í röðum eftir því að komast aftur í loftið og eina hreyfingin sem sést eru örfáir flutningabílar sem aka um völlinn.

Á þessum árstíma er jafnan nóg að gera á flugvellinum og fjöldi fólks á leið til útlanda. Nú er annað uppi á teningnum. Nóg er af lausum bílastæðum við flugstöðina enda engir ferðalangar fullir tilhlökkunar á leið út í heim eða komnir til landsins til að skoða Ísland. 

Samkvæmt spám Seðlabankans er gert ráð fyrir yfir 80 prósenta fækkun í komum ferðamanna til landsins. Fram hefur komið að farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 99,3 prósent í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og bókuðum nóttum á hótelum fækkaði um 97 prósent. Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands í sumar. 

Alla jafna þætti það óhugsandi og í raun óheimilt að fljúga dróna yfir flugvelli en eftir að heimsfaraldur lagði nánast niður flugsamgöngur víða um heim í einum vetfangi gafst kostur á slíkri myndatöku. 

Magnús Atli Magnússon tók myndirnar sem fylgja fréttinni úr dróna. 

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV