Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lögreglu tilkynnt um skotna fugla á Geldinganesi

Súla sem fannst skotin á Geldinganesi í maí 2020.
 Mynd: Edda Björk Arnardóttir
Dauðar súlur og hrafn sem virðast hafa verið skotin með riffli fundust nýverið í fjörunni við Geldinganes. Einnig fannst skotin súla við Ægissíðu. Það var Edda Björk Arnardóttir íbúi í Grafarvogi sem gekk fram á hræin.

Henni er að vonum brugðið og lætur þung orð falla í garð þeirra sem svona hegða sér. Þarna væri ekki verið að veiða sér til matar heldur væri eingöngu verið að drepa fuglana til dægrastyttingar.  

Lögum samkvæmt er leyfilegt að veiða hrafn allt árið en súlan er friðuð. Varptími fugla stendur nú yfir og getur teygt sig inn í júnímánuð.  

Bjarni Pálsson teymisstjóri lífríkis og veiðistjórnunar hjá Umhverfisstofnun segir atferli af þessu tagi algerlega óásættanlegt enda mætti alls ekki skjóta fugl í fuglabjörgum. Sömuleiðis er bannað að hleypa af skotum á landi nær þeim en 200 metra og 500 metra á sjó. Annars konar háreysti er einnig óleyfileg.  

Að sögn Bjarna hefur Umhverfisstofnun eftirlitshlutverk en ekki sjálfstæða rannsóknarheimild. Mál af þessu tagi séu alltaf tilkynnt til lögreglu og það hafi þegar verið gert.  

Bjarni segir að verði fólk vart við brot af þessu tagi sé réttast að tilkynna þau beint til lögreglu en segist þó hafa skilning á að fólk vilji hafa stofnunina sem millilið.