Íslendingar sólgnir í jarðarber

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Íslendingar sólgnir í jarðarber

20.05.2020 - 11:21

Höfundar

„Við erum með í kringum 70 þúsund plöntur í húsunum. Á mismunandi stigum að vísu, en þetta er hellingur,“ segir Eiríkur Ágústsson, garðyrkjubóndi í Silfurtúni á Flúðum.

Landinn heimsótti Silfurtún en þar fer fram jarðarberjaræktun. Íslendingar virðast vera sólgnir í jarðarber en það kom bersýnilega í ljós þegar Costco opnaði. Þá seldist þó lítið sem ekkert af innlendri framleiðslu en það jafnaði sig fljótt að sögn Eiríks. „Þeir hafa tekið vel í þessa vöru okkar. Þetta er dýr vara og eðlilega ekki allir sem leyfa sér það,” segir Eiríkur.

Hann segir að í ástandinu að undanförnu hafi eftirspurn eftir íslensku grænmeti og ávöxtum aukist. „Við finnum fyrir því að það er mikið rennerí á svæðinu. Það eruu margir á rúntinum, margir sem kíkja við og fá jarðarber beint úr húsinu.“

Eiríkur er bjartsýnn á framhaldið. „Umræðan er jákvæð í garð íslenskrar framleiðslu og ég hef von um að það verði bjart framundan.“