Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grænmetisbændur fagna komu vorsins

Blómkál
 Mynd: Fréttir
Bændur vinna nú myrkranna á milli við hin ýmsu verk. Garðyrkjubændur ætla að bæta í framleiðslu sína til að anna aukinni eftirspurn eftir íslensku grænmeti.

Vorið er farið að gera vart við sig í flestum landshlutum og þá er mikið að gera því fylgir mikill álagstími hjá bændum í jarðrækt, sauðburði, og útplöntun. Á Flúðum eru garðyrkjubændur farnir að planta út káli, sá kartöflum, gulrófum og fleiru. Guðjón Birgisson, garðyrkjubóndi á Melum, segir að aukin tækifæri séu meðal annars í blómkálsræktun hér á landi, þar sem aðstæður til slíkrar ræktunnar séu að versna í Evrópu.

„Mér skilst að það sé orðið það heitt í Evrópu að það sé svolítið erfitt að rækta það út af hita,“ segir Guðjón.

Ánægja með nýjan garðyrkjusamning

Í síðustu viku undirrituðu fulltrúar stjórnvalda, Bændasamtakanna og Sambands garðyrkjubænda endurskoðun garðyrkjusamings sem felur í sér aukna innlenda framleiðslu, kolefnisjöfnun og niðurgreiðslu á flutnings- og dreifikostnaði rafmagns. Guðjón fagnar samningnum og segir garðyrkjubændur ætla að mæta aukinni eftirspurn af krafti.

„Það er svo kærkomið að það hálfa væri nóg. Við ætlum að taka kallinu um að bæta við íslensku grænmeti á markaðinn. Við ætlum að svara því kalli,“ segir Guðjón

Framleiðendur séu að stækka við sig og byggja gróðurhús, en einnig þurfi að verða nýliðun.

„Blessunarlega þá eru nýjir útiræktunarframleiðendur að koma inn, og það er gleðiefni því að við þessir fjögur eða fimm sem sjáum um þetta, við yngjumst ekkert,“ segir Guðjón.

Kalt á nóttunni en hlýtt á daginn

Kartöflubændur eru langt komnir með að setja niður kartöflur víða um land. Næturkuldi og jafnvel frost hefur verið seinustu vikur sem er ekki gott fyrir spírun og vöxt planta. Bergvin Jóhansson, kartöflubóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi segir að flestir kartöflubændur ætli sér að setja niður svipað magn af kartöflum eins og seinustu ár. Innlend framleiðsla nái nánast að anna eftirspurn.

„Svona nokkurn veginn. Það hefur aðeins vantað aðeins að menn geti uppfyllt til að hafa við kartöfluverksmiðjunni í Þykkvabænum. Það vantar aðeins í hana. En hljóðið í kartöflubændum er yfirleitt mjög gott. Upp á tún og grassprettu þyrfti að fara að rigna, en þetta er ágætt fyrir kartöfluræktunina“ segir Bergvin.