„Erum að gera það sem við getum"

20.05.2020 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Seðlabankastjóri segir að útgjöld íslenskra heimila hafi flust frá útlöndum til Íslands, vegna þess að þjóðin sé hætt að ferðast. Það hjálpi þjóðarskútunni að halda sjó. Stýrivextir Seðlabankans eru komnir niður í eitt prósent og hafa aldrei verið lægri.

Peningastefnunefnd tilkynnti í morgun að vextir yrðu lækkaðir um 0,75 prósentustig, minna en sumar greiningardeildir höfðu spáð.  Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að tilgangurinn sé bæði að örva hagvöxt og lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja.

„Okkur hefur heppnast að halda jafnvægi. Verðbólguvæntingar hafa ekki hækkað, krónan er tiltölulega stöðug. Þannig að við getum gert þetta. Við getum lækkað vexti án þess að sjá hagkerfið fara úr jafnvægi," segir Ásgeir.

Bankinn spáir 8% samdrætti landsframleiðslu í ár. Þar vegur þyngst yfir 80% fækkun í komum ferðamanna til landsins. Útlit er fyrir að atvinnuleysi aukist mikið og fari í um 12% á þriðja fjórðungi ársins en verði tæplega 9% á árinu öllu. Bankinn reiknar ekki með að ferðamenn snúi aftur að ráði til landsins á þessu ári, en telur samt að efnahagsumsvif færist smám saman í eðlilegt horf á seinni hluta þessa árs.

Vonandi skammur tími

Ásgeir telur ekki að spár bankans séu óhóflega bjartsýnar, því aðgerðir seðlabankans og ríkisstjórnarinnar vegi saman upp á móti áhrifum faraldursins. En meira komi til:

„Íslendingar eyddu miklum peningum erlendis í ferðalögum, þeir fjármunir eru að koma inn á íslenskan markað. Þannig að það er talsverð tilfærsla á útgjöldum íslenskra heimila frá útlöndum til Íslands. Og það er að einhverju leyti að koma á móti og örva hagkerfið."

Níu prósenta atvinnuleysi á þessu ári - heldurðu að íslenskt efnahagslíf haldi sjó í gegnum þennan faraldur?

„Það er góð spurning. Íslenska þjóðin hefur lent í ansi mörgu í gegnum tíðina - ég vona það. Þetta er vonandi bara skammur tími. Og vonandi heppnast okkur með svona aðgerðum að örva hagkerfið aftur. Búa til ný störf og fleyta fyrirtækjum yfir þetta áfall.  Það er það sem við vonumst eftir. Þess vegna höfum við tekið stýrivexti niður í eitt prósent, sem er algert sögulegt lágmark, til þess að ná þessu fram. Þannig erum við að gera það sem við getum," segir Ásgeir.