Efla hlýtur Kuðunginn

20.05.2020 - 15:45
Kuðungurinn, Umhverfisviðurkenning Umhverfis- og auðlindarráðherra veitt Eflu.
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Verkfræðistofan Efla hlaut í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Guðmundur Ingi GUðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, veitti viðurkenninguna í dag.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Efla hafi frá upphafi leitast við að vera leiðandi í umhverfismálum, hvort sem er í eigin rekstri eða í framboði á umhverfisvænum lausnum. Umhverfisráðgjöf skipi stóran sess í þjónustu fyrirtækisins og þá hafi fyrirtækið rutt brautina fyrir ný úrræði í umhverfismálum umfram lagalegar kröfur. „Hjá Eflu er umhverfisvinkillinn settur á öll verkefni en slík umhverfistenging er gríðarlega mikilvæg hjá fyrirtæki sem sinnir margskonar ráðgjöf og verkefnastjórnun,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Fram kemur að Efla leggur mikla áherslu á umhverfisstjórnun í eigin starfsemi, í ráðgjafarþjónustu, almennum rekstri eigin skrifstofa og rannsóknarstofa, í innkaupum og við val á birgjum. Í lok árs 2018 flutti fyrirtækið í nýtt húsnæði en við endurbyggingu þess voru gerðar kröfur um BREEAM umhverfisvottun þar sem rík áhersla var lögð á vistvæn byggingarefni, góða hljóðvist, flokkunarstöðvar og góða aðstöðu fyrir starfsfólk sem stundar virka ferðamáta. Þá hefur Efla unnið markvisst að því að minnka eigið kolefnisspor og vakti athygli með útreikningum á kolefnisspori mismunandi máltíða í eigin mötuneyti, svokallað matarspor.

Í dómnefnd Kuðungsins sátu Hrönn Hrafnsdóttir, formaður, Ágúst Elvar Bjarnason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Heimir Janusarson f.h. Alþýðusambands Íslands og Hrefna Sigurjónsdóttir, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.

 

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi