Biðtími eftir aðgerðum hefur lengst vegna COVID-19

20.05.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Vigdís Hallgrímsdóttir forstöðumaður skurðstofu- og gjörgæslukjarna segir að biðtími eftir aðgerðum á Landspítalanum hafi lengst vegna faraldursins. Um 4000 bíði nú eftir ýmsum aðgerðum en gera megi ráð fyrir að listinn eigi eftir að lengjast.

Hefðbundin starfsemi Landspítala fór af stað 4. maí. „Núna bíða hjá okkur rétt liðlega 4000 manns á biðlista. Hefur listinnn verið að lengjast? Hann hefur lengst núna á þessu ári. Það hafa bæst á hann 192 einstaklingar frá því 1. janúar“

„Og kannski er þetta líka falskt lág tala vegna þess að allar greiningar, rannsóknir og göngudeildartímar lágu niðri á meðna Covid gekk yfir. Þannig að við vitum að við getum átt von á því að það fjölgi enn frekar á biðlistunum hjá okkur.“
 
Lengstu biðlistarnir eru eftir liðskipta- og augasteinsaðgerðum. Átttahundruð bíða eftir að komast í liðskiptaaðgerð og 950 eftir augasteinsaðgerð.
Vigdís segir að yfirleitt séu biðlistar eftir valaðgerðum. Á spítalanum sé frekar horft til þess hve lengi fólk þarf að bíða.   

„Sko meðalbiðtími á Landspítalanum eru rúmir fimm mánuðir en flestir eru að komast í aðgerð hjá okkur á núna í kringum 4 mánuðum. Í byrjun árs voru flestir að komast í aðgerð á innan við 3 mánuðum. Hefur þá biðtíminn lengst vegna Covid?  Já biðtíminn hefur lengst“ 
 
Samkvæmt viðmiðum Landlæknis á biðtími eftir aðgerð ekki að vera lengri en þrír mánuðir.  

Þúsund færri aðgerðir voru gerðar á fyrstu fjórum mánuðum ársins miðað sama tíma í fyrra. „Þannig að það  mun auðvitað taka okkur tíma að vinna þetta upp en hvað það tekur langan tíma er erfitt að segja til um.“