Vita ekki dæmi um barnasjúkdóm í kjölfar COVID-19 hér

19.05.2020 - 22:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekki er vitað til þess að barn hér á landi hafi fengið bólgusjúkdóm, sem talinn er tengjast COVID-sýkingum. Sjúkdómurinn hefur greinst í börnum í Evrópu og í Bandaríkjunum, en er mjög sjaldgæfur. Langflest ná fullum bata en dæmi eru um að börn hafi látist af völdum hans.

Meirihluti barna sem fá COVID-19 fá lítil eða engin einkenni. Undanfarið hafa þó börn víða um heim fengið óvenjulegan bólgusjúkdóm í kjölfarið, sem líkist talsvert svokölluðum kawasaki-sjúkdómi. Helstu einkenni hans eru hiti, bólga í vörum og tungu, roði og bjúgur á höndum og fótum, eitlastækkun og roði í augum. Einkenni þessa nýja bólgusjúkdóms eru um margt svipuð, en oft alvarlegri. Hann hefur áhrif á hjarta- og æðakerfið og þó að langflest börn nái fullum bata hefur sjúkdómurinn dregið önnur til dauða. 

Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir, segir að talið sé að þessi nýi sjúkdómur tengist COVID-19. Hann komi oftast fram innan tveggja til þriggja vikna frá COVID-sýkingu og leggist oftar á heldur eldri börn en kawasaki-sjúkdómurinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir

Tengslin við COVID-19 ekki alveg skýr

Það er þó ekki alveg víst að sjúkdómurinn tengist COVID-19. „Kannski þrír fjórðu af þeim börnum sem hafa greinst með þetta hafa fengið COVID, hafa greinst ýmist með stroki eins og við gerum hér eða á blóðprófu, en nokkur börn sem hafa ekki greinst,“ segir Valtýr. 

181 barn greindist með COVID hér á landi. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki vita til þess að barn hafi fengið þennan sjúkdóm. Hann bendir á að kawasaki-sjúkdómurinn komi reglubundið upp. „Það greinast alltaf börn með kawasaki-sjúkdóm hér á Íslandi, kannski fjögur til sex tilfelli á ári, og hafa gert í mörg mörg ár,“ segir Þórólfur. „Það veit enginn hver orsökin fyrir þessum sjúkdómi er en eins og svo margir aðrir bólgusjúkdómar þá er það talið geta komið upp í kjölfarið á ýmsum sýkingum.“

Sjaldgæfur sjúkdómur sem langflest börn ná sér af

Valtýr segir ekki ástæðu fyrir foreldra að hafa áhyggjur, enda um sjaldgæfan sjúkdóm að ræða. „Þetta er mjög sjaldgæft fyrirbæri. Það hafa greinst núna í Bretlandi til dæmis eitthvað á milli 75 og 100 börn í landi þar sem eru 15 til 20 milljónir barna, þannig að líkurnar á því að þetta komi upp hér eru litlar,“ segir Valtýr. Það sé þó ekki útilokað. 

Valtýr segir að foreldrar ættu nú sem endranær að leita læknis ef barn þeirra fær háan hita eða verður mjög veikt. Til sé meðferð við slíkum bólgusjúkdómum sem gefi góða raun. „Langflest af þessum börnum sem hafa greinst með þetta fyrirbæri erlendis, þeim reiðir vel af á endanum, þau komast í gegnum þetta fyrirbæri,“ segir Valtýr.