Vinsældir blómkálsræktunar jukust í ketóæðinu

Mynd: RÚV / RÚV

Vinsældir blómkálsræktunar jukust í ketóæðinu

19.05.2020 - 12:24

Höfundar

Það hefur verið nóg að gera á gróðrarstöðvum undanfarið enda er kominn vorhugur í landann með hækkandi sól og rýmkandi samkomubanni. Morgunútvarpið leit inn hjá hjónunum Guðmundi Vernharðssyni og Sigríði Helgu Sigurðardóttur sem eiga og reka Gróðrastöðina Mörk, sem hefur í 40 ár verið uppeldisstöð fyrir garð- og skógarplöntur. Þau hafa haft í nægu að snúast við að afgreiða garðyrkjuáhugafólk og hlúa að plöntunum.

Guðmundur segir að það sé alveg ljóst miðað við umferðina hjá þeim að landsmenn bíða vorsins fullir eftirvæntingar eftir erfiða tíð og innilokun. „Svo er það þessi orka sem fylgir vorinu og fylgir þessu græna sem við sjáum lifna við,“ tekur Sigríður undir. Sumarblómin eru vinsæl hjá hjónunum enda litadýrðin nánast ótakmörkuð. „Ég held það séu litirnir sem við þurfum á að halda. Þegar allt þetta græna er að koma fram köllum við á litina sem koma fram í blómunum. Eftir dimman vetur kemur birtan og þá kemur þessi orka alveg sjálfkrafa í okkur,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margir huga að blóma og kryddjurtaræktun með hækkandi sól

 

Guðmundur segir að fólk sé ólmt í að byrja að byrja að setja niður sumarblómin en enn sé um vika þar til þau geti talist fullkomlega örugg fyrir frosti. „Það hefur verið ansi kalt á nóttunni en fólk er farið í gang með þau,“ segir hann. Og það er eins með matjurtirnar sem hafa verið mjög vinsælar. „Margar tegundirnar eru viðkvæmar fyrir frosti. Það er kannski vika í að við förum að selja matjurtir til að planta út í matjurtargarða.“ Hjónin rækta sjálf blómin sem þar eru til sölu. „Allt sem þú þarft í garðinn er selt hér,“ segir Guðmundur brattur. „Tré, runnar, sumarblóm, plöntur og skógarplöntur til að fara með í bústaðinn.“

Tískubylgjur stýra vinsældum kryddjurta og sumarblóma. Salat er alltaf vinsælt  og blómkálið rauk upp í vinsældum þegar ketó-matarkúrinn náði hæðum. „Hortensían hefur verið vinsæl undanfarin ár og hún er enn í sókn,“ segir Guðmundur um sumarblómin. „Í trjánum er það rósakirsi sem selst upp ár eftir ár.“

Sigríður segir að það sé óþarfi að mikla garðræktina fyrir sér og gera þetta of erfitt. Það sé upplagt fyrir hvern þann sem hefur áhuga á að skreyta líf sitt með litum eftir dimma tíð, að prófa sig áfram í garðinum. „Þetta á fyrst og fremst að vera dvalarstaður sem fólk nýtur þess að vera á, með eitthvað fallegt í kringum sig.“

Rætt var við hjónin Guðmund og Sigríði í Morgunútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Reykjavíkurborg

Barist fyrir tilverurétti villtra borgarblóma

Náttúra

Hjólandi vísindamaður fann gullsnotru í Vaðlaskógi