Úrslitastund hjá Icelandair á föstudag

19.05.2020 - 20:43
Mynd: Kastljós / RÚV
Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, segir að engir góðir valkostir séu varðandi stöðu flugfélagsins og gjaldþrot sé eitthvað sem menn verði að horfast í augu við að geti raunverulega gerst. Hann segir hluthafafundinn á föstudag vera úrslitastund. „Ég held að þetta sé krítískur tími.“

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld þar sem staða Icelandair var rædd.

Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að Icelandair þurfi að safna 29 milljörðum en félagið á miklum erfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins þar sem nánast allt millilandaflug liggur niðri.

Meðal þess sem hluthafar hafa sett sem skilyrði er að gerðir verði nýir kjarasamningar. Búið er að semja við flugmenn og flugvirkja en ekki hafa náðst samningar við flugfreyjur. Jón Karl segir að kjaramálin hjá félaginu hafi lengi verið í umræðunni. Léleg nýting á áhöfnum félagsins hafi áhrif á samkeppnisstöðuna og það sé þetta sem samningalotan snúist um. 

Flugfreyjufélag Íslands og Icelandair frestuðu boðuðum samningafundi í dag og samkvæmt heimildum fréttastofu voru það flugfreyjur sem óskuðu eftir því. Nýr fundur verður væntanlega boðaður á morgun.  Jón Karl segist bjartsýnn á að samningar takist. „Hinn valkosturinn er svo erfiður. Það vilja allir að Icelandair lifi og þetta er hluti af þeirri forsendu.“

Hluthafafundur verður á föstudag og Jón Karl segir hann krítískan. Verði niðurstaðan sú að menn ætli ekki að leggja meira fé inn sé eini valkosturinn að ríkið yfirtaki félagið því ekki séu neinir erlendir fjárfestar að horfa hingað.  Aftur á móti verði menn að horfast í augu við það að Icelandair geti orðið gjaldþrota.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild hér.