Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umferðin breyttist við sönginn

19.05.2020 - 19:22
Mynd: RÚV / RÚV
Fjölgun kórónuveirusmita varð til þess að draga úr umferð á höfuðborgarsvæðinu og svo samkomubann. Þá hafði söngur þríeykisins og poppara landsins letjandi áhrif á akstur. 

Vegagerðin mælir umferðina og var hún svipuð og í fyrra þangað til í elleftu viku, níunda til fimmtánda mars. Þá fór að draga úr umferð. Þá höfu níutíu kórónuveirusmit greinst hér á landi. 

Vikuna á eftir 16.-22. mars dró svo enn úr umferð. En samkomubann tók gildi 16. mars. Það hafði mikil áhrif á samfélagið. Þjónusta varð takmörkuð og sums staðar þurfti að skella í lás.

Vikuna á eftir, 23.-29. mars dró enn meira úr umferð. Enda var samkomubann hert 24. mars. Þá máttu ekki fleiri en tuttugu koma saman og öll starfsemi sem krefst nálægðar innan tveggja metra var bönnuð. Fjölmörgum verslunum var lokað.

Næstu viku á eftir, þegar líða fór að páskum, tók umferð að glæðast. Þá fóru margir að landsmenn að skoða náttúruperlur á borð við Gullfoss og Geysi. Þá var talsverð umferð í sumarbústaði. 

Þá tók þríeykið sig til ásamt landsliði poppara og söng um ágæti þess að ferðast innanhúss. Lagið var fyrst sýnt í Sjónvarpinu 7. apríl. Og þá dró aftur úr umferð enda komnir páskar. Í fyrra dró reyndar einnig úr umferð um páskana og enn meira en í ár.

Umferðin hefur aukist svo jafnþétt  eftir því sem hefur verið slakað á samkomubanni og reglum. Núna sýna mælingar að umferðin er mjög áþekk því og hún var á sama tíma í fyrra.