Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þar sem ljóta fólkið býr

Mynd: wikicommons / wikicommons

Þar sem ljóta fólkið býr

19.05.2020 - 16:49

Höfundar

„Ljótleiki er dyggð, fegurð er þrældómur,“ segir á skjaldarmerki Klúbbs hinna ljótu, rótgróins félagsskapar ófríðs fólks í 2.000 manna bæ, Piobbico á Ítalíu.

Á milli hárra tinda Apennínafjallgarðsins og gullinna strandanna við Adríahafið liggur ítalska héraðið Marche. Landið milli fjalla og sjávar liggur hátt, ofan við þröngar strendur þess liggja háir klettar og teygja sig til fjalla sem geyma grösuga dali. Lestarteinar sem eiga upphaf sitt í háskólabænum Bologna og liggja til hafnarborgarinnar í suðri, Brindisi, liggja meðfram ströndinni en annars eru samgöngur í héraðinu frekar seinfarnar, með sínum einbreiðu fjallavegum.

Einn þessara seinförnu vega, sem liggur um einn þessara grösugu dala, fer í gegnum þorp sem í fyrstu lætur lítið yfir sér. Þetta er dæmigert miðaldaþorp þar sem án efa búa einhverjir skóarar því að héraðið er þekkt fyrir langa sögu skógerðar. Einhverjir fínustu leðurskór landsins eru víst handgerðir á þessum slóðum. Í þorpinu eru nokkrar litlar verslanir, kaffihús og veitingastaðir, lítil gistiheimili og eitt ævafornt aðaltorg með lítilli miðaldakirkju. Það er óhætt að segja að þetta sé fallegt þorp. Eða hvað? 

Þrátt fyrir ægifegurð náttúrunnar sem umlykur þorpið og þröng miðaldastrætin er þó ekki alltaf jafn fagurt um að litast í bænum sjálfum því að hann er yfirfullur af ljótu fólki. Í einu af öngstrætunum sem liggja frá kirkjutorginu er að finna algjörlega dæmalausan klúbb. Eða það er að segja, í upphafi var klúbburinn dæmalaus en í dag hefur hann fætt af sér þónokkra sína líka víðs vegar um heiminn. En upphafið er í þessum litla bæ, Piobbico.

Frá árinu 1879 hefur þessi ríflega 2.000 manna bær hýst hinn svokallaða Club dei brutti, Klúbb hinna ljótu, félagsskap þar sem fólk kemur saman til að fagna sinni ljótu ásjónu og innri fegurð sinni. Sagan segir að ljóti klúbburinn hafi orðið til af nauðsyn einni, þegar of margar einhleypar konur í þorpinu og nágrenni þess voru orðnar fjárhagsleg byrði, og hálfgerð skömm, á fjölskyldum sínum. Þá ákváðu einhverjir frumkvöðlar að taka til sinna ráða, vekja máls á vandræðum þessara ljótu kvenna og fjölskyldnanna sem sátu uppi með þær, og stofna vettvang fyrir þær til að hitta einhleypa menn. Vettvangnum fylgdu líka hugmyndir um að hafa áhrif á skynjun fólks á útliti. Þessar konur voru síst verri kostur en systur þeirra sem auðveldara var að koma út. Þessar konur voru víst álitlegur kostur því eins og kemur fram í kjörorðum klúbbsins þá er manneskja sú sem hún er, en ekki sú sem hún lítur út fyrir að vera. 

Verndari klúbbsins er rómverski guðinn Vúlkan sem var svo ljótur að móðir hans henti honum fram af himinháum kletti. Vúlkan lifði fallið af og varð með tímanum færasti járnsmiðurinn í ríki manna og guða. Svo víðfrægur varð hann fyrir handverk sitt að sjálfur Akkilles fékk hann til að smíða  fyrir sig vopn. Að lokum fékk Vúlkan aðgang að Olympus-fjalli þar sem honum tókst að heilla ástargyðjuna Venus og giftast henni. Goðsögnin um Vúlkan minnir okkur auðvitað á að útlitið er alls ekki ávísun á velgengni og að stundum getur það reyndar verið okkar akkilesarhæll, í það minnsta í vestrænum samfélögum þar sem dýrkunin getur orðið svo mikil að hún leiðir ekki bara af sér vanlíðan og sjúkdóma heldur hreinlega dauða. Það er ekki bara hugmyndin um klassíska fegurð sem klúbburinn hefur á stefnuskránni að útrýma heldur líka hugmyndir okkar um að ákveðið útlit hafi ákveðinn mann að geyma. 

Það er kannski ekki skrítið að klúbbur hinna ljótu hafi fæðst á Ítalíu, landi þar sem fegurðin hefur verið dýrkuð í máli og myndum um aldir alda. Útlitsdýrkun er þéttofin í ítalska menningu og hugtakið bella figura er gott dæmi um það. Hugtakið vísar ekki bara í fallega framkomu, að klæða sig upp og líta vel út við öll tækifæri, heldur nær það til allra anga samfélagsins og hefur áhrif á tungumálið, siðina, viðskiptin og pólitíkina. Hvergi er jarðvegurinn fyrir fegurðariðnaðinn jafn ríkur og á Ítalíu samkvæmt fræðikonunni Gloriu Nardini sem hefur tileinkað rannsóknir sínar hugtakinu og fundið tilvísanir í það allt aftur til fjórtandu aldar. Að koma vel fram og vera fallegur hefur lengi verið ein helsta dyggðin í ítalskri menningu og þannig haft áhrif á heiður heilu ættartrjáanna. Að vera bruta figura, ekki bara ljótur heldur koma subbulega fyrir, hefur alltaf verið ein helsta skömm fjölskyldunnar.  Að stofna klúbb hinna ljótu hefur því haft ansi mikla þýðingu í einangruðu fjallaþorpi við lok nítjándu aldar.

Í skjaldarmerki klúbbsins er að finna mynd af eldri manni með þétt yfirvaraskegg og stórt nef að reykja pípu. Ofan við myndina stendur: „Ljótleiki er dyggð, fegurð er þrældómur.“ Núverandi forseti klúbbsins, Giovanni Aliugi,  sagði í viðtali við BBC, sem var birt  fyrr á árinu, að það sem skipti klúbbfélaga mestu máli væri að fagna ljótleikanum til þess að útrýma fordómum í garð ljótra. Hann segir að tilgangur klúbbsins sé einnig að minna fólk á að taka sjálft sig ekki of hátíðlega og að berjast gegn hvers kyns útlitsdýrkun. Í seinni tíð hefur áherslan færst aftur á að vera vettvangur fyrir einhleypa sem vilja hitta maka, og er orðin eins konar Tinder fyrir ljóta.

Ár hvert berast klúbbnum hundruð bréfa alls staðar að og segir Giovanni að stór hluti fólks sé að leita að maka. Klúbburinn geri sitt besta til að hughreysta fólk og minna það á gildi klúbbsins en það takist ekki alltaf. En hann vill trúa því að sístækkandi klúbburinn og allir hans angar, en nú eru yfir 30.000 félagar í 25 löndum, sé vitnisburður um minnkandi fordóma, ekki bara í garð fólks vegna útlits, heldur líka í garð allra minnihlutahópa sem þurfa að þola fordóma vegna þess hver þau eru eða hvaðan þau koma. 

Giovanni hefur verið forseti klúbbsins frá árinu 2007 en þar áður hafði Telesforo Locobelli verið forseti í áratugi og sópað til sín verðlaunum fyrir sinn einstaka ljótleika, kannski vegna hans smágerða nefs en það þykir víst mun fínna að vera nefstór á þessum slóðum. Sama ár og Giovanni var kjörinn forseti afhjúpaði klúbburinn minnisvarða á einu af torgunum í þorpinu. Minnisvarðinn er höggmynd af óþekktri manneskju sem heldur á spegli og starir á spegilmynd sina. Eins konar áminning um tilgangsleysi útlitsdýrkunar og sjálfhverfu og mikilvægi þess að kynnast frekar okkar innri manni. 

Ætli það megi ekki segja að Piobbico sé fallegt þorp. Ekki vegna klassískrar ásjónu þess og fallegra hlutfallanna í ómótstæðilegu landslaginu, steinlögðu strætanna og litlu kaffihúsanna á sólríkum torgunum, heldur vegna alls ljóta fólksins sem þar býr og auðgar þess innri anda með andspyrnu gegn fegurðardýrkun.