Rúmlega þriðjungur þingmanna hefur upplifað einelti

19.05.2020 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
35 prósent þingmanna hefur upplifað einelti í starfi eða í tengslum við starfið. Hlutfallið var 15 prósent meðal starfsfólks skrifstofu og 6,3 prósent hjá starfsfólki þingflokka. Þetta kemur fram í könnun á starfsumhverfi Alþingis sem Félagsvísindastofnun gerði að beiðni forseta Alþingis. „Við hljótum að taka niðurstöðurnar alvarlega, sláandi sem þær eru, fylgja þeim eftir og halda vinnunni áfram,“ er haft eftir Steingrími J. Sigfússyni á vef þingsins.

Könnunin náði til starfsfólks á skrifstofu Alþingis, starfsmanna þingflokka og þingmanna, alls 206  manns og var svarhlutfallið 74 prósent. 

45 af þeim 64 þingmönnum sem fengu könnunina senda svöruðu. Í könnuninni má sjá að samskipti kjörinna fulltrúa geta oft verið stirð því 42 prósent þingmanna sögðust hafa upplifað erfið samskipti vikulega eða daglega.  

Þá kemur fram að 23,3 prósent höfðu upplifað að myndir og/ eða ummæli um þau sem höfðu kynferðislegar vísanir eða inntak hefðu birst í fjölmiðlum.  Þriðjungur kvenkyns þingmanna en 16,7 prósent karla á þingi. 

Nærri þriðjungur þingmanna taldi sig hafa orðið fyrir áreitni og 16 prósent þingmanna sögðust hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í tengslum við starf sitt á Alþingi. Þá greindu 14,6 prósent þingmanna frá því að nánum fjölskyldumeðlimum hefði verið hótað ofbeldi í tengslum við störf sín á Alþingi.

Helmingur taldi að starf þeirra sem þingmaður hefði valdið fjölskyldumeðlimum erfiðleikum í störfum eða námi.  Ekki kom fram hlutfallslegur munur á svörum karla eða kvenna við síðustu spurningunni.

Rúmlega þriðjungur þingmanna sagðist hafa upplifað kynbundna áreitni. 16 prósent allra þeirra sem tóku þátt í könnun Félagsvísindastofnunar sögðust hafa upplifað kynferðislega áreitni en sú tala er ekki skýrð neitt frekar og því sést ekki hvernig hlutfallið var hjá þingmönnum, starfsmönnum þingflokka eða starfsfólki á skrifstofu Alþingis.

Rúmlega þriðjungur þingmanna sagðist hafa orðið fyrir einelti í starfi eða í tengslum við starfið. Ekki var mælanlegur kynjamunur en af þeim 28 sem sögðust hafa upplifað einelti höfðu 35,7 prósent orðið fyrir því á síðustu sex mánuðum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV