Myllum fækkað í fyrirhuguðum vindmyllugarði í Garpsdal

19.05.2020 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: emp - RÚV
Myllum í fyrirhuguðum vindmyllugarði í Garpsdal verður fækkað frá fyrri tillögu úr 35 í 21 myllu. Þær dreifast yfir stærra svæði en áður var ráðgert og skila minna heildarafli inn á raforkukerfið. Tillögur um breytt aðalskipulag voru kynntar íbúum Reykhólahrepps á rafrænum íbúafundi í gær.

EM Orka hyggst reisa vindorkugarð í landi Garpsdals við Gilsfjörð í Reykhólahreppi. Garðurinn verður rúmlega fjórir ferkílómetrar að stærð og verður á Garpsdalsfjalli. Miðað við fyrri áætlanir er áhrifasvæði garðsins stækkað úr 3,3 ferkílómetrum. Hver vindmylla skilar 4,2 megavöttum og nær hver mylla rúmlega 150 metra upp í loftið í hæstu stöðu. Í fyrri tillögum var gert ráð fyrir að hver mylla skilaði 3,6 megavöttum en samkvæmt tillögunni verður myllunum fækkað og hver mylla stækkuð.  Áður var gert ráð fyrir að garðurinn myndi skila tæpum 130 megavöttum en miðað við núverandi tillögur er gert ráð fyrir um 88 megavatta framleiðslu.

Reyna að lágmarka rask

Gert er ráð fyrir að lagður verði jarðstrengur að tengivirki Landsnets í Geiradal um sex kílómetra frá garðinum.  Gera þarf breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps til að garðurinn verði að veruleika.

Framkvæmdirnar þurfa að fara í umhverfismat og fram kom á kynningarfundinum í gær að það hafi nú þegar farið fram, en lokaskýrsla sé væntanleg innan mánaðar. Fram kom að í umhverfismatinu hafi sjö umhverfisþættir verið metnir og flestir þeirra verið metnir þannig að áhrif myllanna væru jákvæð. Áhrifin væru neikvæð gagnvart landslagi og ásýnd enda sé uppbyggingin í óröskuðu landi sem liggi hátt. Tekið var fram að til að draga úr neikvæðum áhrifum sé mikilvægt að huga vel að litavali, lágmarka lýsingu og rask á svæðinu.

Ný störf skapist í hreppnum

Ekki er talið að hvinur frá vindmyllunum hafi áhrif á íbúa Reykhólahrepps, þar sem þeir séu búsettir það langt frá garðinum að það berist ekki að mannabústöðum.

Hins vegar séu áhrif á efnahag, atvinnu og byggð í Reykhólahreppi jákvæð. Gert er ráð fyrir að með tilkomu garðsins skapist 15 til 20 varanleg störf í tengslum við viðhald, og á framkvæmdatímanum um 200 störf til eins til tveggja ára. 

Vindmyllugarðinum er ætlað að auka framboð á raforku í landsfjórðungnum og efla atvinnulíf í Reykhólahreppi sem hefur glímt við fólksfækkun seinustu ár. EM Orka er dótturfélag EM holdings sem er samstarfsfyrirtæki írsks vindmylluþróunarfyrirtækis EM Power og danska vindmylluframleiðandans Vestas.

Kynningarfundinn má sjá hér fyrir neðan.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi