Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Mjög umhugsunarvert fyrir Hæstarétt Íslands“

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Íslenska ríkið hefur viðurkennt brot gegn sex fyrrverandi starfsmönnum Byko og Húsasmiðjunnar. Þeir voru dæmdir í Hæstarétti 2016 fyrir verðsamráð, en töldu málsmeðferðina ólögmæta þar sem engar vitnaleiðslur fóru fram og því var engin bein sönnunarfærsla fyrir Hæstarétti. Sátt um bótagreiðslur náðist fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í morgun. Lögmaður eins þeirra býst við að allir íhugi að sækja frekari skaðabætur.

Tólf starfsmenn Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins voru handteknir í mars 2011 og ákærðir fyrir samráð um verð á grófvörum. Ellefu voru sýknaðir af öllum sakarefnum í héraði vorið 2015 en tólfti maðurinn fékk eins mánaðar skilorðsbundinn dóm. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar, sem sneri dómnum við og dæmdi einn í átján mánaða fangelsi, tvo í níu mánuði og þrjá í þrjá mánuði.

Í sáttinni fyrir Mannréttindadómstólnum, sem birt var í morgun, segir að mennirnir sex falli fái tæpar tvær milljónir króna hver gegn því að falla frá frekari kröfum á hendur ríkinu. Það kemur þó ekki í veg fyrir endurupptöku málanna fyrir íslenskum dómstólum.

Íhuga alvarlega að gera frekari kröfur á ríkið

„Þetta fólk sem brotið var gegn með þessum hætti er þá komið með þessa niðurstöðu í hendurnar og það hlýtur að íhuga alvarlega að fara fram á endurupptöku þessara sakamála fyrir íslenskum dómstólum. Þá er hægt að gera þar frekari kröfur,“ segir Geir Gestsson, lögmaður eins mannanna

Áttu von á að þinn umbjóðandi geri það?

„Hann mun íhuga það alvarlega eins og held ég flestir menn í hans stöðu myndi gera sem hafa verið sakfelldir með ólögmætum hætti.“

Mannréttindadómstóllinn úrskurðaði í máli sjöunda mannsins í fyrra og komst þá að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið á honum með sakfellingu án réttlátrar málsmeðferðar. 

„Að sjö manns séu sakfelldir með ólögmætum hætti í refsimáli og það hafi ekki einu sinni einn einasti dómari í Hæstarétti skilað sératkvæði í málinu, er mjög umhugsunarvert fyrir Hæstarétt Íslands og íslensku lögfræðingastéttina,“ segir Geir Gestsson.