Leggur til leið fyrir neytendur til að fá endurgreitt

Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir / RÚV
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram tillögu í atvinnuveganefnd um að ferðaþjónustufyrirtækjum verði gert kleift að endurgreiða ferðir án þess að fara í gjaldþrot eða rekstrarstöðvun. Hann greindi frá þessu í ræðu á Alþingi og segir að sú leið myndi ekki brjóta gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar er lagt til að komið verði til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða pakkaferð, sem hefur verið aflýst vegna kórónuveirufaraldursins, með inneignarnótu. Inneignarnótuna verður hægt að leysa út að tólf mánuðum liðnum. 

Jón Þór segir að tveir sérfræðingar sem hafi komið fyrir atvinnuveganefnd til að ræða pakkaferðafrumvarp ferðamálaráðherra. Þeir hafi báðir sagt að frumvarpið myndi svipta fólk eignarrétti með því að það fengi inneignarnótu í staðinn fyrir kröfu um endurgreiðslu. Ríkir almannahagsmunir þyrftu að vera fyrir lagabreytingunni, skaðinn lágmarkaður fyrir eignarréttarhafana og aðrar leiðir ekki færar. 

Jón Þór segir að skoðaðar hafi verið hvaða aðrar leiðir væru færar án þess að svipta kröfuhafana eignarrétti sínum. Neytendasamtökin hafi verið að skoða sömu hugmynd. „Ráðherra ferðamála sagði í Víglínunni [á Stöð 2] í vikunni að 20 stærstu ferðaskrifstofurnar geta staðið undir að endurgreiða en lög segja að þau mega aðeins ganga í þessar tryggingar, þá peninga sem eru á bókum, ef þær verða annað hvort gjaldþrota eða fara í rekstrarstöðvun.“

Jón Þór segir einfalda lausn á þessu. „Fyrst þessir peningar eru til staðar, þessar tryggingar, og ekki verður farið í bókaðar ferðir, þá fá þær ferðaskrifstofur einfaldlega, án þess að fara í rekstrarstöðvun og án þess að fara í gjaldþrot, aðgang að þeim peningum til að endurgreiða neytendum. Þá fá neytendur endurgreitt samkvæmt lögum, við brjótum ekki neytendarétt, við brjótum ekki eignarrétt, við brjótum ekki stjórnarskrá. Ferðaskrifstofurnar fá aðgang að peningunum til að halda lausafjárstöðu sinni gangandi,“ segir Jón Þór. 

Útfærslur á þessu megi skoða í nefndinni. „Ég hef lagt þessa tillögu fram og meðan það er til önnur raunhæf leið væri það brot á stjórnarskrá að fara þá leið sem ráðherra hefur lagt til. Ég legg því til að nefndin skoði það sem hefur verið samþykkt betur og ég mun leggja fram breytingartillögu við málið ef nefndin ætlar ekki að fara aðrar leiðir.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi