Hundruð þúsunda misstu vinnuna í Bretlandi

19.05.2020 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Atvinnuleysi jókst til muna í Bretlandi í apríl frá mánuðinum á undan. Alls fjölgaði á atvinnuleysisskrám um 856 þúsund manns. 2,1 milljón Breta er án atvinnu um þessar mundir, samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í dag. Tölurnar leiða einnig í ljós að um það bil fimmtíu þúsundum fleiri voru atvinnulausir í landinu á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra.

Stjórnvöld gáfu um það fyrirskipun 23. mars að landsmenn skyldu halda sig heima til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Launamönnum yrði bættur skaðinn með fé úr ríkissjóði. Þrátt fyrir það ákváðu stjórnendur margra fyrirtækja, eins og til dæmis British Airways, að segja upp fjölda starfsfólks í sparnaðarskyni.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV