Gróðureldar eru ekkert grín

Mynd með færslu
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. Mynd: Arnar Páll Hauksson
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins vill eindregið brýna fyrir fólki á öllum aldri að láta sér ekki koma til hugar að kveikja eld í sinu. Mikilvægt sé að árétta að gróðureldar eru ekkert gamanmál og illa geti ráðist við þá á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Undanfarin ár hefur Veðurstofan gefið út sérstakar viðvaranir vegna gróðurelda en þær hafi ekki  borist enn þetta árið. Jón Viðar nefnir einkum útivistarsvæði þar sem mikill trjágróður hefur vaxið á undanförnum árum. Þar geti aðkoma slökkviliðs verið torveld og sömuleiðis erfitt fyrir það að athafna sig. Auk þess segir Jón að verulega örðugt sé að hemja eld við þær aðstæður.  

Hann vill sömuleiðis árétta að dýralíf gæti verið í hættu af gróðureldum auk þess sem nú væri að hefjast varp hjá fuglum.  

Jón Viðar segir tíðni sinuelda ganga í sveiflum milli ára og að það séu ekki eingöngu börn og unglingar sem stundi að kveikja þá. Hann segist reyndar telja tölvuleikjaáhuga ungmenna góðan fyrir gróðurinn. Leiða má líkum að því að auðveldara sé að fá útrás fyrir spennu í leik en að tendra elda í viðkvæmum gróðri. 

Að mati Jóns er besta leiðin til að koma í veg fyrir að kveikt sé í sinu að tala sem minnst um þann verknað og leiða þannig hugann frá honum. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi