Fundu „fyrir óþægindum í návígi við Klausturþingmenn“

19.05.2020 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Vísbendingar um kynferðislega áreitni komu fram í opnum spurningum sem Félagsvísindastofnun lagði fyrir þingmenn, starfsfólk á skrifstofu Alþingis og starfsfólk þingflokka. Stofnunin telur þarft að skoða þær vísbendingar nánar líkt „og að kvenþingmenn finnir fyrir óþægindum í návígi við Klausturþingmenn svokallaða,“ eins og segir í skýrslu Félagsvísindastofnunar. Þá var greint frá grófu einelti og langvarandi afleiðingum þess sem Félagsvísindastofnun telur að rannsaka þurfi frekar.

Alls kusu 15 að tjá sig í opnu svari.  Meðal annars var bent á það að þingið væri ekki venjulegur vinnustaður heldur „átakavettvangur“ í sjálfu sér. Þetta hefði það sjálfkrafa í för með sér að samskipti innan hans fælu í sér „vanvirðandi framkomu“ og að „lítið væri gert úr skoðunum.“ 

Sá mælikvarði sem notaður væri til að mæla erfið samskipti væri að miklu leyti samofinn starfi þingmannsins og gæfi því ekki raunhæfa mynd af viðeigandi og óviðeigandi framkomu þingmanna við störf í garð hvers annars á starfsvettvangi.  Fram kom í könnun Félagsvísindastofnunar að 42 prósent þingmanna sögðust hafa upplifað erfið samskipti vikulega eða daglega.

Í opnu svörunum var einnig greint frá mjög grófu einelti bæði í og utan þingsalar ásamt alvarlegum, langvarandi afleiðingum sem Félagsvísindastofnun telur þörf á að rannsaka með ítarlegri hætti en með könnun.  Rúmlega þriðjungur þingmanna sagðist hafa upplifað einelti.

Þá birtust einnig vísbendingar um kynferðislega áreitni sem Félagsvísindastofnun telur þarft að skoða nánar líkt og að „kvenþingmenn finni fyrir óþægindum í návígi við Klausturþingmenn svokallaða.“

Félagsvísindastofnun segist ekki ætla að fjalla nánar um þær frásagnir af einelti og áreitni sem birtust í opnum svörum þar sem þetta voru fá tilfelli og hætta á rekjanleika.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV