Velgengni Jordans og dans á línu réttindabaráttunnar

18.05.2020 - 10:34
Mynd: EPA / EPA
Þáttaröðinni um Michael Jordan og Chicago Bulls, The Last Dance, sem hefur verið sú langvinsælasta síðustu fimm vikurnar, lauk í gærkvöld. En hvað gerði Michael Jordan að stærstu stjörnu bandaríska körfuboltans og íþrótta um allan heim, og hvað hefði breyst ef Jordan hefði nýtt þau völd og áhrif sem í þessu fólust til að bæta heiminn, og styðja til dæmis við réttindabaráttu svartra af krafti, sama krafti og gerði hann að þeim langbesta á vellinum, í stað þess að sitja á hliðarlínunni.

Chicago Bulls tíunda áratugarins er eitt besta íþróttalið sögunnar og það eru nánast forréttindi að fá að fylgjast með leikmönnum liðsins bak við tjöldin þegar þeir unnu sjötta og síðasta meistaratitil sinn árið 1998. Körfuboltaáhugamenn þekkja söguna, hafa horft á úrslitakeppnina og fylgst með yfirburðum Jordans, en það er nýtt fyrir öllum að sjá hann greina frá eiturlyfjanotkun liðsfélaganna, úthúða þeim á æfingum og bregðast við átökum við andstæðinga sem rista enn djúpt, þremur áratugum síðar. Þótt þættirnir séu byggðir á nýjum viðtölum við Jordan og fleiri er myndefnið aðalatriðið.

Núverandi framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar, Adam Silver, og hans menn fengu þá hugmynd 1997 að fylgja leikmönnum liðsins eftir allt tímabilið sem stjórn Bulls hafði ákveðið að yrði síðasta ár þjálfarans Phils Jackson með liðið. Þetta var því lokahnykkurinn, síðasta tímabilið undir hans stjórn sem Jackson kallaði, The last Dance. 

epa07049403 US former basketball player Michael Jordan watches the French Ligue 1 soccer match between Paris Saint Germain and Reims, in Paris, France 26 September 2018.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Jordan segist fyrst og fremst hafa einbeitt sér að körfuboltaferlinum og ekki viljað blanda pólitík inn í hann.

Og Silver og hans menn fengu það sem þeir vonuðust eftir. Tímabil og lið sem færi í sögubækurnar. Þetta var annað skiptið á átta árum sem Bulls tókst að vinna meistaratitilinn þrisvar í röð. Það hafa aðeins örfá önnur lið leikið eftir. Og fyrirmyndin var sótt í mynd um íshokkílið á níunda áratugnum, The Boys on the bus, þar sem leikmönnum Edmonton Oilers var fylgt eftir allt tímabilið. 

Það var nánast óhugsandi á þessum tíma, sumarið 1997, að myndatökumenn fengju nær óheft aðgengi að Michael Jordan, sem var allt í senn, besti körfuboltamaður heims, frægasti einstaklingurinn og verðmætasta vörumerkið. Hann átti mikið undir því að lenda ekki í fjölmiðlafári, eins og hafði gerst svo oft árin þar á undan, með spilafíknina, dauða föður hans og átökin í kringum draumalið Ólympíuleikanna í Barcelona 1992. En tökuvélarnar fengu að rúlla, og alls 500 klukkutímar af efni fóru á rúmlega þrjú þúsund 16 millimetra filmurúllur, og svo beint í geymslu. Og þar sátu þær þar til sumarið 2016, í um tvo áratugi, því að samkomulag Silvers og Jordans var á þá leið að efnið yrði ekki notað nema með samþykki þeirra beggja. Og Jordan beið í nærri tuttugu ár, sem er nánast óhugsandi á tímum samfélagsmiðla þegar nánast allt gerist í rauntíma og frétta- og myndefni rennur sitt skeið á nokkrum klukkustundum eða dögum.

Í þessu felst sérstaða þáttanna. Þeir sem eldri eru og horfðu á leikina þekkja yfirburði Jordans á vellinum en þeir sem komust til vits og ára á tíunda áratugnum fá líklega alveg sérstakt nostalgíukast að geta fylgst með því sem fram fór í búningsherberginu eftir leikina, sem áttu eftir að verða þeir síðustu sem Jordan spilaði fyrir Chicago Bulls. Og það sem eykur enn á nostalgíuna er tónlistin í þáttunum, því að sigrar og vinsældir Jordans og hiphoppsins í Bandaríkjunum héldust í hendur.

Fram hefur komið gagnrýni á aðstandendur þáttanna og leikstjórann, Jason Hehir, frá kvikmyndagerðarmönnum og fleirum sem efast um að þættirnir sýni rétta mynd af Jordan, heldur fremur þá sem hann vilji sjálfur sýna en Jordan er einn framleiðenda. Hlutleysi framleiðenda er því dregið í efa og því er líklega rétt að líta á þættina fyrir það sem þeir eru, saga Jordans og Chicago Bulls, sögð af Jordan, því það var hans ákvörðun hvað fengi að vera með, og hvað ekki.

Grundvallargildi blaðamennsku eru því látin lönd og leið en það kemur kannski ekki á óvart því Jordan er afar umhugað um ímynd sína. Vörumerkið Jordan er enn eitt það verðmætasta innan bandarískra íþrótta, og þótt miklu víðar væri leitað. Hæst launuðu íþróttamennirnir í Bandaríkjunum í dag eru flestir úr NBA-deildinni og hver með sinn samning við sportvöruframleiðendur en enginn þeirra kemst í hálfkvisti við Jordan, tæpum tveimur áratugum eftir að hann hætti. Hann fékk um 200 milljónir bandaríkjadala frá Nike í fyrra, en Lebron James kemur næstur með 47 milljónir. Og elstu skórnir þykja verðmætastir, en um helgina keypti safnari skóna sem Jordan lék í á sínu fyrsta tímabili með Bulls, fyrir jafnvirði 82 milljóna króna. Það var á Sotheby's uppboði en skórnir eru 35 ára gamlir og áritaðir af Jordan. 

Árið 2016 seldust fleiri Jordan-skór, en allar hinar körfuboltastjörnurnar seldu til samans. Og skósala varð einmitt tilefnið að einum umdeildustu ummælum Jordans, Republicans buy sneakers too - Repúblíkanar kaupa líka strigaskó, og með þessu þótti Jordan sýna að hann tæki gróða og eigin ímynd fram yfir grunngildi - jafnrétti og mannréttindi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Jordan sagði í þáttunum að ummælin um skókaup Repúblíkana hafi verið grín og sögð í hálfkæringi við blaðamann á sínum tíma.

Þetta sagði Jordan í blaðaviðtali árið 1990 þegar hann var spurður hvers vegna hann styddi ekki Demókratann Harvey Gantt, sem sóttist eftir því að verða öldungadeildarþingmaður Norður-Karólínu, heimaríkis Jordans, og verða þar með fyrsti þeldökki öldungadeildarþingmaður ríkisins, og einn af aðeins örfáum sem setið hafa í efri deild bandaríkjaþings. Núna sitja þrír þeldökkir þingmenn í öldungadeildinni, af 100, en þeir fylla ekki einu sinni tuginn sem hafa setið í efri deild bandaríska þingsins frá því svörtum var gert kleift að bjóða sig fram til þingmennsku, árið 1870. Harvey Gantt bauð sig fram gegn sitjandi þingmanni, Jesse Helms, sem var umdeildur repúblíkani og hafði ítrekað opinberað kynþáttahatur sitt, meðal annars með auglýsingu skömmu fyrir kosningar gegn frumvarpi sem var ætlað að tryggja svörtum jöfn tækifæri á vinnumarkaði.

Margir hvöttu Jordan til að styðja Gantt, meðal annars móðir hans, en hann kaus að gera það ekki, í það minnsta ekki opinberlega. „Ég er á þeim stað í lífi mínu að ég myndi frekar vilja vera lokaður inni í herbergi en í sviðsljósinu, það er eins og allt og allir séu á móti mér, og enginn möguleiki á sigri,“ sagði Jordan og ljóst að fjölmiðlaumfjöllunin fékk mjög á hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Ganttcenter.org
Jordan studdi ekki Gantt opinberlega en bauð til fjáröflunarsamkomu til að styðja hann.

Gantt tapaði naumlega fyrir Jesse Helms og óvíst hvort stuðningur Jordan hefði dugað til. En miklum völdum fylgir mikil ábyrgð og Jordan hefur tekið sér mun stærra samfélagslegra hlutverk síðustu ár. Hann studdi Barack Obama þegar hann sóttist eftir endurkjöri, mótmælti lögregluofbeldi gegn svörtum þegar það komst í hámæli 2016 og studdi bæði NFL-leikmenn og Lebron James, í baráttu þeirra og orðaskaki við Trump Bandaríkjaforseta. 

Og kannski sér Jordan eftir öllu saman. Hann segir að ummælin um skókaup Repúblíkana hafi verið grín, og hann hafi ekki haft baráttumanninn í blóðinu, eins og boxarinn Mohammad Ali. „Ég dáist að Mohammad Ali fyrir að tala fyrir því sem hann trúði á. En ég leit aldrei á mig sem aktívista. Ég var körfuboltamaður. Ég var ekki stjórnmálamaður þegar ég spilaði körfubolta. Ég einbeitt mér að því. Það það eigingjarnt? Sennilega, en þangað fór öll mín orka,“ sagði Jordan í þáttunum. Hylli Jordans var engin tilviljun, því burtséð frá körfuboltahæfileikum hafði hann margt með sér. Hann var myndarlegur, vel gefinn og vel máli farinn og hefði líklega geta haft mikil áhrif á þau málefni sem hann hefði kosið að styðja eða berjast fyrir opinberlega. 

epa06541825 Michael Jordan (L), President of the Los Angeles Lakers Jeanie Buss (C), and Los Angeles Clippers Owner Steve Ballmer (R) converse at the 2018 All-Star game at the Staples Center in Los Angeles, California, USA, 18 February 2018.  EPA-EFE/MIKE NELSON  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Jordan segist fyrst og fremst hafa einbeitt sér að körfuboltaferlinum og ekki viljað blanda pólitík inn í hann. Og þeim sem fylgjast með þáttunum dylst ekki að það reyndi á. Fjölmiðlaathyglin átti sér fá fordæmi og blaðamenn dylgjuðu meðal annars um að spilafíkn Jordans hefði tengst dauða föður hans, án þess að nokkur fótur væri fyrir því, en James Jordan var skotinn til bana sumarið 1993 og fljótlega eftir það tók Michael Jordan sér átján mánaða hlé frá körfubolta. Það er því að mörgu leyti skiljanlegt að Jordan hafi ekki viljað láta til sín taka á opinberum vettvangi, eins og Ali sem neitaði að gegna herþjónustu og mótmælti Víetnamstríðinu, og galt fyrir það dýru verði, en hann fékk ekki að keppa í fjögur ár á meðan dómstólar skáru úr um hvort hann hefði mátt neita að gegna herþjónustu.

7 Feb 1988: Michael Jordan #23 of the Chicago Bulls goes for a dunk during the 1988 NBA All Star Slam Dunk Competition at Chicago Stadium in Chicago, Il. Jordan went on to win the Slam Dunk Competition.  HIGH RESOLUTION FILE 42 MB. NOTE TO USER: User expressly acknowledges and agrees that, by downloading and/or using this Photograph, User is consenting to the terms and conditions of the Getty Images License Agreement. Mandatory copyright notice and Credit: Copyright 2001 NBAE  Mandatory Credit: Andrew D. Bernstein/NBAE/Getty Images
 Mynd: EPA

 

Vinsældir the Last Dance eiga sér fá fordæmi, enda líklega erfitt að finna betri tíma en þessa til að frumsýna sjónvarpsseríur. Útgáfu hennar var flýtt um nokkrar vikur vegna kórónuveirufaraldursins. Rúmlega sex milljónir fylgjast með þáttunum í beinni útsendingu í Bandaríkjunum, sem slær öll met, og enn fleiri horfa á Netflix þegar þættirnar birtast þar stuttu síðar. Enn einu sinni hefur Michael Jordan því náð augum og eyrum heimsbyggðarinnar og dregið aðdáendur sína og fjölmarga aðra að sjónvarpsskjánum. 

Ég geri allt til að vinna, segir Jordan í þáttaröðinni, og þetta viðhorf er heillandi en um leið átakanlegt að fylgjast með hvaða áhrif þessi þörf til að sigra hefur á hann og þá sem eru í kringum hann. Síðustu tveir þættir, sem birtir voru í byrjun vikunnar, fjölluðu um liðsfélaga Jordans og hversu erfitt var að spila með honum. En lokaþættirnar, sem birtast eftir helgi, fjalla um það sem var af tvennu illu margfalt erfiðara, að spila gegn honum. Þar er farið yfir úrslitaeinvígin 1998 gegn Indana Pacers og Utah Jazz og einn frægasta leik Jordans, í úrslitaeinvíginu gegn Utah. Þar spilaði Jordan fárveikur en tryggði Bulls nauman sigur. En Jordan lýsti því í lokaþættinum að líklega hefði hann fengið matareitrun en hver sem ástæðan var, er frammistaða hans í leiknum með þeim eftirminnilegri, en hann skoraði 38 stig og virtist um tíma varla standa í fæturna. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi