Þrjátíu bílhlöss af mengun

18.05.2020 - 19:37
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Þrjátíu bílfarmar af olíumenguðum jarðvegi reyndust vera við Elliðaárnar í Reykjavík. Talið er að sökudólgurinn sé olíutankur, sem rifinn var fyrir þrjátíu árum. Heilbrigðisfulltrúi segir vanta stað fyrir úrgang af þessu tagi. 

Veitur standa fyrir umfangsmiklum framkvæmdum sem teygja sig að Toppstöðinni í Elliðaárdal í Reykjavík. Á fimmtudag kom í ljós olíumengaður jarðvegur. 

„Þessi mengun uppgötvast þegar Veitur eru að endurnýja stofnlagnir. Það er verið að endurnýja stofnlagnir hitaveitu, vatnsveitu og leggja nýja háspennustrengi,“ segir Hörður Jósef Harðarson, verkefnisstjóri Veitna.

Hörður segir að nokkurra daga töf hljótist af þessu en það hafi óveruleg áhrif á svo umfangsmiklar framkvæmdir. 

Árið 1948 var Toppstöðin reist og tveir olíutankar henni við hlið. Þeir voru fjarlægðir fyrir rúmum þrjátíu árum en olía virðist hafa lekið út í jarðveg frá öðrum þeirra eða þá að steinolía hafi verið sett í grunninn til einangrnar. 

„Við erum ekki alveg viss hvaða olía þetta er en það var talsverð mengun sem var þarna í grunninum sem var ekki búist við í svona miklu umfangi,“ segir Svava Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. 

Talið er að það þurfi að flytja allt að þrjátíu vörubílahlöss af menguðum jarðvegi. Það eru 360 rúmmetrar eða jafnmikið og hálf sundlaugin í Sundhöllinni.

„Það er farið með þetta upp í Álfsnes. Það er eini móttökustaðurinn sem getur tekið við svona menguðum jarðvegi. Það væri náttúrulega æskilegra ef við hefðum einhvers konar meðhöndlunarstöð eða móttökustað sem getur sérstaklega við svona menguðum úrgangi en við erum ekki í þeirri stöðu í dag,“ segir Svava.

Er einhver grunur um að hér hafi ekki verið farið að lögum og reglum og þess vegna sé þessi olíumengun?

Það er mjög erfitt að segja. Við erum náttúrulega að tala um mjög gömul mannvirki og allt öðru vísi laga- og reglugerðarumhverfi á þeim tíma,“ segir Svava.

Hún segir að engin olía hafi borist í ána. 

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi