Sér ekkert athugavert við sölu á stöðugleikaeignum

18.05.2020 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisendurskoðun sér ekkert athugavert við sölu Lindarhvols ehf. á eignum sem Seðlabankinn tók á móti í tengslum við gerð nauðasamninga í kjölfar hrunsins. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að árangur við sölu eignanna hafi farið fram úr væntingum.

 

Ríkisendurskoðun sér ekkert athugavert við sölu ríkisins á eignum sem Fjármálaráðherra lét stofna sérstakt félag um, Lindarhvol ehf., árið 2016 sem hafði það að markmiði að selja eignir sem slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja var heimilað að greiða til ríkisins sem stöðugleikaframlag í stað stöðugleikaskatts. Þau námu alls 384 milljörðum.

Ríkisendurskoðun var falið að gera úttekt á því hvernig staðið var að sölu eignanna sem var að mestu lokið í byrjun árs 2018 en skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt í dag. Farið var yfir allar sölur og kannað hvort söluverðið væri lægra eða hærra en bókfært virði. Í þeim tilvikum sem það var lægra var leitað skýringa hjá Lindarhvoli og reyndust þær fullnægjandi, að mati Ríkisendurkskoðunar.

Í skýrslunni segir að Ríkisendurskoðun telji að árangur Lindarhvols við umsýslu, sölu og fullnustu eigna hafi farið nokkuð fram úr væntingum og skilað ríkissjóði umtalsverðu fé umfram það sem gert var ráð fyrir.

Eina athugasemdin sem gerð er við söluferlið er að hugsanlega hafi ríkið getað fengið meira fyrir eignirnar ef ríkið hefði gefið Lindarhvoli rýmri tíma fyrir sölu þeirra. Þó er tekið fram að hafa verði í huga að fjármunirnir sem fengust vegna sölu eignanna hafi meðal annars verið nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og þannig hafi sparast vaxtakostnaður ríkisins og lánshæfismat hækkað. Ekki sé hægt að meta hverju það hafi skilað í krónum talið. 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir