
Hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir í verkfall
Í könnuninni kemur fram að óánægja með grunnlaun, óljós kjarasamningur og að ekki sé nægilega hugað að hagsmunum dagvinnufólks sé helsta ástæða þess að hjúkrunarfræðingar höfnuðu kjarasamningum við ríkið í lok apríl.
Tæpur helmingur, 49,6% sagðist tilbúinn í almennt verkfall, 32,5% sögðust tilbúin í verkfall í formi yfirvinnubanns, en hægt var að velja báða möguleikana. 33,5% sögðust hvorki í verkfall né yfirvinnubann.
Samningurinn var felldur 29. apríl með rúmum 53% atkvæða. Tæp 46% samþykktu samninginn, en hjúkrunarfræðingar höfðu þá verið án samings í rúmt ár, eða frá 31. mars í fyrra. Samningurinn sem þá rann út var gerður eftir úrskurð Gerðardóms árið 2015 eftir tíu daga verkfall.
Samninganefndir hjúkrunarfræðinga og ríkisins sitja nú á samningafundi í húsi ríkissáttasemjara. Þetta er fimmti fundurinn frá því að samningurinn var felldur, en hátt í fimmtíu fundir hafa verið haldnir í kjaradeilunni frá því samningar losnuðu í mars í fyrra.
„Hjúkrunarfræðingar eru að senda mjög skýr skilaboð. Þeir eru tilbúnir til að ganga nokkuð langt til að fá laun miðað við menntun og ábyrgð í starfi,“ segir Guðbjörg.
Líta á niðurstöðurnar sem staðfestingu
Er eitthvað sem kom á óvart í þessum niðurstöðum? „Við vorum búin að heyra bæði í trúnaðarmönnum og hjúkrunarfræðingum sjálfum þegar við vorum að kynna samninginn og þá skynjuðum við þetta mjög sterkt. Miklu sterkara en við áttum von á. En það var líka þess vegna sem við ákváðum að fara í könnunina, að greina betur hvað það var sem hjúkrunarfræðingum líkaði eða sáu að þeir vildu ekki hafa inni í samningnum. Við lítum á þetta sem mikla staðfestingu,“ segir Guðbjörg.
Hún segir of snemmt að fullyrða um hvort farið verði í aðgerðir af einhverju tagi. „Við tökum þessar upplýsingar bara að samningsborðinu. Við höfum kynnt þetta fyrir samninganefnd ríkisins. við höfum mjög skýrar línur frá félagsmönnum til að vinna eftir.“