Hafa náð tökum á aðstæðum en verða að fram undir morgun

18.05.2020 - 22:36
Mynd: Gísli Einarsson / RÚV
Um sjötíu til níutíu manns berjast nú við gróðurelda í Norðurárdal. Slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar segir slökkvistarf í fullum gangi en þeir ráði illa við eldinn þar sem hann sé „á eins slæmu landi og hugsast getur.“ Nánast vonlaust er að koma vatni á staðinn.

Uppfært kl 01:15: Samkvæmt Heiðari Erni Jónssyni, aðstoðarslökkviliðsstjóra Slökkviliðs Borgarbyggðar náðust tök á aðstæðum um eitt í nótt. Hann segir að unnið verði áfram að slökkvistarfi fram undir morgun.

Tilkynnt var um eldinn á sjötta tímanum í dag. Hann er nokkru neðan við fossinn Glanna á móts við Veiðilæk. Enginn mannvirki eru talin vera í hættu en Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, segir að mikið landsvæði eigi eftir að brenna. „Þetta er mosi, kjarr og úfið hraun.“

Hann treystir sér ekki til að leggja mat á það hversu mikið landsvæði hafi þegar brunnið þar sem lítið sjáist fyrir reyk.  Það sé lán í óláni að svæðið sé afmarkað af Norðurá og þjóðveginum norður á land sem eigi að duga til að halda eldinum í skefjum.  Hraunið nái hins vegar allt undir Grábrók. Fyrr í dag beindi slökkviliðið því til flugvéla að halda sig í fimm kílómetra radíus frá eldinum þannig að hægt væri að nota dróna til að meta umfang eldsins. 

Bjarni segist ekki vita hversu lengi slökkvistarf muni standa en það verði fram á nótt. Þeir hafi þurft að leita á náðir nágranna sinna, búið sé að kalla út allt tiltækt lið auk þess sem liðsauki hafi borist frá Brunavörnum Suðurnesja.  Sú aðstoð sé ómetanleg. „En það er eins djöfullegt að eiga við þetta og hugsast getur. Apalhraunið er svo gisið og það blæs í gegnum það.“ 

Það geri síðan slökkviliðsmönnum enn erfiðara fyrir að apalhraunið er úfið, þakið gjalli og erfitt yfirferðar. Og til að bæta gráu ofan á svart er nánast vonlaust að koma vatni á staðinn. „Gróðureldar eru orðnir náttúruvá og miðað við veðurfarið á Íslandi þarf að setja þetta inn í lög um náttúrvá. Sveitarfélögin er vanbúin til að takast á við þetta og nú þarf að taka á þessum málum.“

Töluvert hefur verið um gróðurelda síðustu daga. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti meðal annars þremur útköllum vegna þess í gær. Fyrst kviknaði eldur í Skammadal í Mosfellsbæ. Þá varð líka minni eldur, um fimmtán fermetrar, við Stekkjarbakka hjá Elliðarárdal áður en kviknaði í við Þorláksgeisla í Grafarholti.

Mynd: Gísli Einarsson / RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi