Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gagnrýndu forsætisráðherra fyrir sinnuleysi í garð Nató

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður MIðflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sóttu hart að forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í dag vegna frétta þess efnis að flokkur hennar hefði staðið gegn 12 til 18 milljarða uppbyggingu Nató í Helguvík. Forsætisráðherra vísaði gagnrýni formannanna á bug og sagði engar formlegar viðræður hafa átt sér stað um uppbygginguna.

Morgunblaðið sagðist hafa heimildir fyrir því að Vinstri græn hefðu lagst gegn því að ráðist yrði í stórfelldar framkvæmdir á vegum Nató á Suðurnesjum. Umfangið var sagt nema 12 til 18 milljörðum og íslenska ríkið hefði lítið þurft að greiða á móti.

„Hundruðum starfa fórnað fyrir innanflokksviðhorf“

Sigmundur Davíð sagði að það væri sérkennilegt að VG stæði á móti þessari uppbyggingu þar sem Ísland væri nú einu sinni aðili að Nató. Þá væri ekki hægt að horfa fram hjá því að atvinnuleysi á Suðurnesjum væri nú nærri 30 prósent. „Hvernig getur VG leyft sér að koma í veg fyrir svona verkefni?“ Spurði Sigmundur.

Hann vildi vita hvernig forsætisráðherra hefði komið í veg fyrir að af þessu yrði? „ Leyfir flokkurinn sér að láta pólitísk innanflokksviðhorf til Atlantshafsbandalagsins ráða hér för og fórna með því hundruðum starfa á Suðurnesjum?“

Nýtt áhættumat í haust

Katrín sagði að engar formlegar viðræður hefðu átt sér stað milli Nató og Íslands um þessa upbyggingu. Þetta hefðu verið hugmyndir sem utanríkisráðherra hefði lagt fram við fjáraukalög og það væri alveg skýrt í hennar huga að „ ákvörðunum um utanríkispólitík og varnarhagsmuni ber ekki að rugla saman við efnahagsaðgerðir þegar Íslendingar standa í efnahagsþrengingum.“ 

Unnið væri eftir yfirlýsingu sem íslensk og bandarísk stjórnvöld hefðu undirritað 2016 þar sem boðuð hefði verið ákveðin uppbygging á Keflavíkurflugvelli og hvað sú uppbygging ætti að snúast um.  Í undirbúningi væri áhættumat fyrir Ísland sem henni fyndist mikilvægt að allar ákvarðanir í þessum efnum ættu að byggjast á. Þetta mat myndi liggja fyrir þinginu í haust.

Vegið að vestrænni varnarsamvinnu

Þorgerður Katrín vildi í framhaldinu fá að vita hvort forsætisráðherra hefði ekki örugglega tekið þessa hugmynd utanríkisráðherra inn í þjóðaröryggisráð. 

Ef það hefði ekki verið gert væri verið að vega að vestrænni varnarsamvinnu. Innanbúðarmál stjórnarflokkanna kæmu í veg fyrir að þjóðaröryggisráð fjallaði um þá hugmynd sem tengdust uppbyggingu hafnarmannvirkja í Helguvík. „Það er verið að grafa undan grundvellinum að vestrænu varnarsamstarfi, það er ekki talað skýrt. Það er áhyggjuefni, ekki bara fyrir Suðurnesjamenn sem þurfa skýr svör frá ríkisstjórninni heldur landsmenn alla sem hafa áhuga og metnað til að hafa hér virka varna- og öryggistefnu.“

Áhættumat endurskoðað vegna kórónuveirunnar

Katrín ítrekaði það sem hún hafði sagt áður; þetta hefði verið hugmynd sem utanríkisráðherra hefði komið fram með í tengslum við fjáraukalög og þetta væri ekki ákvörðun sem væri tekin með þeim hætti. Hún hefði ekki óskað eftir því að þetta yrði rætt í þjóðaröryggisráði enda hefðu engar formlegar viðræður átt sér stað. „Að sjálfsögðu ef til einhverra slíkra framkvæmda kemur eru þær að sjálfsögðu ræddar á vettvangi þjóðaröryggisráðs.“ Sú umræða myndi byggjast á því áhættumati sem þjóðaröryggisráð væri að láta vinna.  

Áhættumatið hefði verið tekið til endurskoðunar vegna kórónuveirufaraldursins sem væri sannarlega öryggisógn „á kannski stærri skala en við höfum séð áður, í langa tíð. Við þurfum að meta hvernig til að mynda varnir okkar eru gagnvart slíkri öryggisógn.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV