Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forsætisráðherra Lesótó tilkynnir afsögn

18.05.2020 - 16:08
epa07000840 Chinese President Xi Jinping (R) shakes hands with Prime Minister of Lesotho, Thomas Motsoahae Thabane (L) before during a meeting at The Great Hall of People in Beijing, China, 06 September 2018.  EPA-EFE/LINTAO ZHANG / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Getty
Thomas Thabane, forsætisráðherra Lesótó, tilkynnti í dag að hann hefði ákveðið að láta af embætti. Með því móti vonast hann til að eyða pólitískri óvissu sem hefur litað þjóðlífið mánuðum saman, frá því að hann var ásakaður um að hafa átt þátt í að eiginkona hans var myrt. Hún var skotin til bana árið 2017. Þau hjónin stóðu þá í harðvítugum skilnaði.

Ríkisstjórn Thabanes var leyst frá völdum í síðustu viku. Gert hafði verið ráð fyrir að hann segði af sér á föstudaginn kemur þegar ráðherrar nýrrar stjórnar sverja embættiseið. Thabane, sem orðinn er áttræður, lét þess ekki getið hvenær hann ætlaði að fara frá, en tók fram að hann ætlaði að verða leiðtogi flokks síns enn um sinn.