Eldur kviknaði í sumarbústað í Úthlíð

18.05.2020 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar til vegna bruna í sumarhúsi í Úthlíð í Bláskógabygg á laugardaginn. Íbúar í næriliggjandi bústað gerðu lögreglu viðvart um eldinn. Slökkvilið var sent á staðinn og tókst að slökkva eldinn með slökkvitæki. Hann virðist hafa kviknað út frá gömlu rafmagnsljósi. Þetta kemur frma á vef lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrr um daginn hafði slökkvilið verið kallað út vegna elds í ruslagámi við Dalbraut á Laugarvatni. Gámurinn var alelda þegar komið var á staðinn. Leifar af einnota grilli fundust í gámnum þegar eldurinn hafði verið slökktur.

Þá logaði sinueldur skammt frá Laugalandi í Rangárvallasýslu í gær. Slökkvilið var kallað á vettvang og slökkti eldinn.  Aðfaranótt sunnudags hafði slökkvilið í Vík í Mýrdal verið kallað út vegna gróðurelds. Lögreglan á Suðurlandi telur rétt að minna á að sinubrenna er bönnuð. Nú er varp hafið hjá flestum mófuglum og því er hætta á að ungarnir brenni ef kveikt er í.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi