Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja leggja eitthvað til baðstofumenningar í „kófinu“

Mynd: Aðsend / Aðsend

Vilja leggja eitthvað til baðstofumenningar í „kófinu“

17.05.2020 - 12:58

Höfundar

Halla Oddný Magnúsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson leiða áhorfendur í tali og tónum um töfraheima sígildrar tónlistar í nýjum þáttum á RÚV. „Þetta er eitt af þessum fjölmörgu skilgetnu afkvæmum kófsins,“ segir Halla Oddný en þættirnir eru teknir upp í tómum Eldborgarsal í samkomubanni.

Þættirnir heita Músíkmolar og segir Halla Oddný að þar sé boðið upp á hæfilegan skammt af tónlist og spjalli sem fólk getur notið í sjónvarpinu á sunnudags- og mánudagskvöldum. Þar spjalla hjónin á léttu nótunum um tónlist frá ýmsum tímum auk þess sem Víkingur leikur verk af nýlegum hljómplötum sínum á sviði Eldborgar í Hörpu.

Gamlir kunningjar hristir fram úr erminni

„Þetta er eitt af þessum fjölmörgu skilgetnu afkvæmum kófsins,“ segir Halla Oddný í samtali við Víðsjá á Rás 1 og vísar þar til COVID-19 faraldursins sem haft hefur svo mikil áhrif á líf okkar allra. Hún segir að þeim hafi runnið blóðið til skyldunnar í samkomubanninu og viljað leggja eitthvað fram til baðstofumenningarinnar sem blómstrað hefur á heimilum Íslendinga í ástandinu.

„Við ákváðum að nýta það sem við þekkjum, það sem við höfum verið að ræða mikið og erum á kafi í. Það eru tónverkin af síðustu hljómplötum sem [Víkingur] hefur verið að gefa út; Rameau/Debussy sem kom út nýlega hjá Deutsche Grammophon beint inn í þetta kófsástand, svolítið af Bach sem var á plötunni á undan og svo laumast inn gamlir kunningjar sem er gaman að spjalla um og Víkingur átti gott með að hrista fram úr erminni í flutningi; Chopin, Beethoven og meira að segja svolítill Bartok. Snorri Sigfús Birgisson á svo innkomu með íslensku þjóðlagi sem er ósköp fallegt líka. Þetta er vítt og breitt en samt fókuserað á það sem við töldum okkur geta lagt fram og gert eitthvað skemmtilegt úr.“

Opna fólki leið inn í tónlistina

Músíkmolar eru í svipuðum anda og þættirnir Útúrdúr sem voru sýndir á RÚV 2013, segir Halla Oddný. „Nema við erum orðin dálítið eldri og ekki kannski vitrari, svolítið hrukkóttari, búin að eiga barn og búin að vaka svolítið í eitt ár og lífsreynslan farin að móta okkur,“ bætir hún við, „en við erum vonandi orðin sjóaðri í þessu en við vorum þá.“

Halla og Víkingur hafa þá sannfæringu að leiðarljósi að ekki sé um tónmennt að ræða. „Við erum bara að spjalla um tónverk sem eru okkur kær og okkur þykja falleg og gaman að spjalla um. Við miðum við að áhorfendur séu annað hvort áhugamenn eða fólk sem hefur opin eyru og er til í að kynnast einhverju nýju. Þeir sem hlusta þurfa ekkert að vera neinir sérfræðingar, það er okkar að koma við einhverja snertifleti sem opna fólki leið inn í þetta.“

Í fyrsta músíkmolanum, sem sýndur er á RÚV í kvöld klukkan 20:15, verður fjallað um Frédéric Chopin með áherslu á hjarta tónskáldsins – sem hægt væri að semja reyfara um í anda Da Vinci lykilsins.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Einlægnin kemur Víkingi upp fyrir fjöldann

Menningarefni

Víkingur verður vikulega í breska ríkisútvarpinu

Klassísk tónlist

Fimm stjörnu Víkingur færir okkur gleði á ógnartímum

Tækni og vísindi

Ráðgátan um andlát Chopin líklega leyst