Sumaráætlun Strætó tekur gildi á morgun

17.05.2020 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Strætó
Strætó á höfuðborgarsvæðinu mun aka samkvæmt sumaráætlun frá og með morgundeginum. Í tilkynningu frá Strætó segir að þjónustuskerðingu vegna kórónuveirufaraldursins sé því lokið og allar leiðir hjá Strætó á höfuðborgarsvæðinu munu því aka samkvæmt óskertri áætlun fyrir utan leiðir 18, 24 og 28, en þær munu áfram aka á 30 mínútna fresti í sumar. 

Næturakstur úr miðbænum um helgar mun hins vegar áfram liggja niðri og þjónusta á landsbyggðinni verður áfram skert þar til að annað verður tilkynnt.

Framdyrnar áfram lokaðar

Dyr vagnanna að framanverðu verða áfram lokaðar og farþegar ganga áfram inn um mið- eða aftari dyr vagnsins. Innra rými strætisvagnanna verður áfram skipt upp í tvo hluta. Borði er strengdur yfir fremsta hluta vagnanna til þess aðskilja svæði vagnstjóra og svæði farþega. Mælt er með því að greiða fargjaldið með Strætókorti eða Strætóappinu.

Áfram eru ítrekuð þau tilmæli að viðskiptavinir sýni varkárni í samskiptum og umgengni, að þeir þvoi hendur og spritti reglulega, hósti og hnerri í olnbogabót, takmarki snertingar á snertifleti og ferðist alls ekki með Strætó ef grunur leikur á smiti.

Að hámarki 30 farþegar 

Hámarksfjöldi farþega um borð í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu verður áfram 30 manns.

Hópaferðir skólabarna og skipulagðar ferðir í íþrótta og tómstundastarfi eru undanþegnar þessum fjöldatakmörkunum. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi