Standa ekki undir lögbundinni þjónustu og þurfa aðstoð

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. - Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra segir verst settu sveitarfélög landsins ekki geta staðið undir lögbundinni þjónustu þegar líður á árið og þurfi því aðstoð. Hann á þó ekki von á að íbúar flýi sveitarfélög vegna atvinnuleysis.

Níu sveitarfélög verst stödd

Staða níu sveitarfélaga í landinu er bágborin því tekjur þeirra af ferðaþjónustu hafa hrunið og atvinnuleysi aukist. Þetta kemur fram í minnisblaði eða skýrslu Byggðastofnunar um áhrif hruns ferðaþjónustunnar á atvinnulíf og tekjur sveitarfélaganna sem sveitarstjórnarráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í fyrradag. Hann segir útlitið jafnvel nokkru dekkra í henni en búist hafi verið við.  

Sveitarfélögin sem Byggðastofnun telur verst stödd eru Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Sveitarfélagið Hornafjörður á Suðurlandi, Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar á Reykjanesskaga og Skútustaðahreppur á Norðurlandi eystra. Ferðaþjónustan hefur borið uppi stóran hluta atvinnulífsins á þessum stöðum. 

„En satt best að segja þá hefur þetta gríðarleg áhrif á öll sveitarfélögin,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra.

Nærri helmingur atvinnulaus í Mýrdalshreppi

Erlendir ferðamenn gistu kringum níu af hverjum tíu gistinóttum í sveitarfélögunum níu síðastliðið sumar. Í maí gerir Byggðastofnun til dæmis ráðið fyrir að nærri helmingur vinnandi fólks í Mýrdalshreppi verði atvinnulaus. Ef atvinnuleysi minnkar um 30% næstu tólf mánuði þá lækkar útsvarið sem sveitarfélögin fá. Hlutfallslega kæmu Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Skútustaðahreppur og Bláskógabyggð verst út en þar myndi útsvarsstofninn lækka um 28 til 40%. 

Geta hreinlega ekki sinnt þjónustu

Stjórnvöld eru nú að greina heildarstöðu sveitarfélaganna með Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að finna út til hvaða aðgerða þurfi að grípa, segir Sigurður Ingi. Það skýrist á næstu fjórum eða fimm vikum. Og svo verður rætt við þau sveitarfélög sem koma verst út og reynt að finna leiðir. 

„Það er eiginlega fyrirliggjandi að í einhverjum af þessum tilvikum að þá munu þessi sveitarfélög þurfa aðstoð við það hreinlega að standa undir lögboðinni þjónustu einhvern tíma þegar að líður á árið. En staðan er ekki komin þangað núna.“

Vonar að ferðalög landsmanna í sumar hjálpi til 

Óttastu að íbúar yfirgefi sveitarfélögin af því þar er enga vinnu að fá?

„Nei alls ekki. Annars vegar vonumst náttúrulega eftir því, eins og við vitum, að það verður mikill áhugi okkar Íslendinga að heimsækja landið okkar í sumar og það mun auðvitað hjálpa til í mörgum af þessum sveitarfélögum.“  

Svo vonast hann til að ferðamenn fari að koma frá útlöndum eftir að landamærin opna eftir tæpan mánuð en það verði ekki á fyrsta degi. Það fari líka eftir öðrum þjóðum og hvernig þeim hefur vegnað í faraldrinum.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi