Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Olíumengaður jarðvegur fannst í Elliðaárdal

17.05.2020 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: Vefur Veitna - Netið
Töluvert fannst af olíumenguðum jarðvegi í Elliðaárdal í Reykjavík á fimmtudaginn þegar verktaki á vegum Veitna var við framkvæmdir við Rafstöðvarveg. Jarðvegurinn fannst í steyptu mannvirki sem talið er að sé gamall olíutankur og er aðeins 15-20 metra frá bakka Elliðaáa.

Á vef Veitna kemur fram að vitað hafi verið að þarna gæti mögulega fundist mengaður jarðvegur en ekkert í líkingu við umfang þess sem þarna fannst á fimmtudaginn. 

„Þetta var töluvert magn. Það voru margir bílar af jarðvegi sem voru keyrðir í burtu,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við fréttastofu. Á vef Veitna segir að olíuslys á þessum stað geti verið grafalvarlegt mál fyrir viðkvæmt lífríkið í dalnum og ánum. Þess vegna var brugðist hratt við og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kallað á staðinn. Stangveiðifélagi Reykjavíkur, sem á ríkra hagsmuna að gæta í Elliðaám, var gert viðvart um fundinn sem og Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun.

Á fimmtudaginn og fram á föstudag var olíumengaður jarðvegurinn keyrður í burtu undir stjórn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem stýrði aðgerðum á vettvangi. Innihald tanksins var flutt í Sorpu sem sér um förgun þess. Kostnaðurinn af þessu er umtalsverður og hleypur á milljónum króna.

Ólöf Snæhólm segir að ekki sé vitað fyrir víst hve lengi olían hefur verið þarna en einhverjir hafa getið sér þess til að hún hafi verið þarna síðan á stríðsárunum. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV