Mikil spenna er Andri og Guðrún fögnuðu sigri

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Mikil spenna er Andri og Guðrún fögnuðu sigri

17.05.2020 - 21:30
Andri Þór Björnsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir stóðu uppi sem sigurvegarar á ÍSAM-mótinu í golfi sem fram fór á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Spennan var mikil í bæði karla- og kvennaflokki.

Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR var með forystuna eftir fyrstu tvo hringi mótsins í gær þar sem hann lék á sex höggum undir pari en skammt á eftir var heimamaðurinn Björn Óskar Guðjónsson úr GM var tveimur höggum á eftir. Andri Þór var á meðal fjögurra kylfinga í þriðja sæti á tveimur undir pari fyrir daginn.

Andri lék stöðugt golf í dag og komst á fjögur högg undir par á síðari hluta hringsins. Þegar hann lauk leik með pari á 18. holu voru hann, Dagbjartur og Björn Óskar allir jafnir á fjórum höggum undir pari. Dagbjartur og Björn voru saman í síðasta holli í karlaflokki en klikkuðu hins vegar báðir á lokaholunni.

Björn Óskar fékk þar skramba en Dagbjartur skolla. Andri Þór fagnaði því sigri, Dagbjartur varð annar og Björn Óskar varð þriðji ásamt Kristófer Karli Karlssyni, liðsfélaga sínum hjá GM.

Bráðabani í kvennaflokki

Í kvennaflokki átti Guðrún Brá Björgvinsdóttir bestan dag í gær. Hún sló vallarmet á fyrri hring dagsins og fyrir hring dagsins með tveggja högga forystu á Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur sem var önnur.

Guðrún Brá fór vel af stað í dag og lék fyrri níu holur vallarins á tveimur höggum undir pari. Þá var hún með fimm högga forystu á Ólafíu Þórunni sem lék fyrri níu á höggi yfir pari. Þá setti Ólafía hins vegar í fluggír og fékk fjóra fugla á næstu fimm holum áður en einn skolli fékkst á 15. braut. Guðrún Brá fékk þrjá skolla og einn fugl á seinni níu.

Báðar voru þær því á tveimur höggum undir pari eftir hringina þrjá og þurfti bráðabana til að útkljá hver stæði uppi sem sigurvegari. Bráðabaninn var leikinn á níundu og tíundi braut og þurfti að leika hvora holu þrisvar áður en Guðrún Brá stóð uppi sem sigurvegari.