„Ekki hægt að flytja diskana inn nógu hratt“

Mynd: DiscGolf / DiscGolf

„Ekki hægt að flytja diskana inn nógu hratt“

17.05.2020 - 17:00
Opna Reykjavíkurmótið í frisbígolfi fer fram á Gufunesvelli um næstu helgi. Frisbígolf, eða Folf, nýtur gríðarlegra vinsælda þessa dagana og segir formaður Frisbígolffélags Reykjavíkur að það sé orðið jafn erfitt að verða sér úti um frisbídiska og pallaefni.

Frisbígolf fór að verða áberandi hér á landi upp úr aldamótunum en síðustu ár hefur iðkendum fjölgað verulega. Árið 2010 var settur upp frisbígolfvöllur á Klambratúni og í kjölfarið jókst áhuginn á íþróttinni. Nú eru um 60 frisbígolfvellir á landinu öllu, sjö þeirra í Reykjavík. En hvað er frisbígolf?

„Folf eða frisbígolf er íþrótt sem er nauðalík golfi, nema í staðinn fyrir að slá bolta þá köstum við diskum - þar til gerðum frisbígolfdiskum. Þetta virkar í rauninni mjög svigað og golf: Þú byrjar á teig, kastar eftir braut og endar á að kasta diskinum í körfu í stað holuna í golfi.“ segir Ólafur Haraldsson, formaður Frisbígolffélags Reykjavíkur.

Ólafur telur að miðað við sölu frisbídiska um þessar mundir séu yfir 20 þúsund sem stunda frisbígolf á landinu öllu.

„Hér er biðröð á vinsælustu völlunum í góðu veðri á kvöldin og um helgar sérstaklega. Það er eiginlega ekki hægt að flytja diskana inn nógu hratt, þeir seljast upp jafn óðum. Þetta er bara eins og pallaefnið, það eru allir að skemmta sér í frisbígolfi finnst manni.“ segir Ólafur.

Mynd: RÚV / RÚV
Hið hefðbundna folfsett fyrir byrjendur.

Frá byrjandareit til Íslandsmeistaratitils á fjórum árum

Hinn 17 ára gamli Blær Örn Ásgeirsson, Íslandsmeistari í opnum flokki, var við æfingar þegar RÚV kíkti við í dag. Ekki er langt síðan byrjaði í íþróttinni en hann hefur bætt sig hratt.

„Ég byrjaði fyrir svona 4-5 árum síðan. Ég var með vini mínum á Flateyri þegar var verið að opna nýjan völl þar svo við ákváðum að prófa og fannst rosa gaman. Ári seinna fékk ég byrjendasett í afmælisgjöf og eftir það byrjaði ég að keppa á fullu. Þá byrjaði þetta.“

„Það hefur bara gengið mjög vel, mér hefur tekist að vinna nokkur mót í útlöndum eins og Opna breska og Opna spænska. Í fyrra náði ég að vinna Íslandsmeistaramótið þannig að það hefur bara gengið nokkuð vel. Ég reyni að vera nálægt þessum bestu en ég þarf ennþá að æfa mig.“ segir Blær.

Innslagið í heild má sjá í spilaranum að ofan. Að neðan má sjá samansafn af púttum Blæs frá Opna spænska meistaramótinu í fyrra.