Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aldrei fleiri ráðherrar í ísraelsku stjórninni

17.05.2020 - 15:27
Erlent · Asía · Ísrael · Stjórnmál
epa08427707 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (C) wearing a protective face mask on his way to attend the swearing in ceremony of the new government, at the Knesset (parliament) in Jerusalem, Israel, 17 May 2020.  EPA-EFE/ALEX KOLOMIENSKY / POOL POOL
 Mynd: EPA-EFE - YEDIOTH AHRONOTH POOL
Ný ríkisstjórn Ísraels tók við völdum í dag eftir rúmlega 500 daga langa stjórnarkreppu og þrennar kosningar. Likudbandlagið og Blá og hvíta bandalagið auk minni flokka standa saman að stjórninni sem nýtur stuðnings 73 af 120 þingmönnum á Knessetinu. Ríkisstjórnin er sú fjölmennasta í sögu Ísraelsríkis og verða ráðherrarnir 34 til 36. Það hefur sætt nokkurri gagnrýni í ljósi erfiðs efnahagsástands.

Benjamin Netanyahu, leiðtogi Likudbandalagsins, verður áfram forsætisráðherra næstu átján mánuði. Þá tekur Benny Gantz, leiðtogi Bláa og hvíta bandalagsins, við keflinu. Til verður ný staða varaforsætisráðherra sem leiðtogarnir skiptast á um að gegna næstu þrjú árin meðan hinn verður forsætisráðherra.

Netanyahu og Gantz tókust harkalega á í kosningum þar sem ekkert gekk að koma á starfhæfum meirihlutastjórnum eftir þeim flokkslínum sem höfðu mótast. Eftir þriðju kosningarnar á skömmum tíma sömdu flokksleiðtogarnir um að taka höndum saman, nokkuð sem var sérstaklega umdeilt í Bláa og hvíta bandalaginu. 

epa08427641 A handout photo made available by Adina Valman/Knesset spokespersons' office shows
Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu speaking during a swearing in ceremony of his new unity government with election rival Benny Gantz, at the Knesset, Israel's parliament, in Jerusalem, 17 May 2020.  EPA-EFE/HANDOUT HANDOUT MANDATORY CREDIT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - X80001

„Nú er tímabært að framfylgja ísraelskum lögum og skrifa nýjan glæstan kafla í sögu síonisma, sagði Netanyahu þegar nýja ríkisstjórnin tók við völdum í dag. Hann vill innlima Vesturbakkann í Ísraelsríki. Viðbúið er að það veki hörð viðbrögð í alþjóðasamfélaginu. Palestínumenn hafa alfarið hafnað því að Vesturbakkinn verði innlimaður í Ísraelsríki. Ísraelar hernámu Vesturbakkann í sex daga stríðinu árið 1967. Forsætisráðherrann sagði að innlimun myndi ekki draga úr friðarvonum heldur auka friðarlíkur. 

Netanyahu hefur verið ákærður fyrir spillingu og á að svara til saka fyrir dómstólum eftir nokkra daga. Hann hefur ávallt neitað sök.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV