Vill ríkisaðstoð við sveitarfélög vegna tekjutaps

Mynd: RÚV / Guðmundur Bergkvist
Þrjú sveitarfélög sjá fram á að útsvar lækki um allt að 26 prósent í ár vegna hruns ferðaþjónustunnar. Sveitarstjórinn í Bláskógabyggð segir erfitt að mæta því nema með því að taka lán. Ríkið þurfi að grípa inn í.

Byggðastofnun gerir ráð fyrir að útsvarstekjur sveitarfélaga lækki umtalsvert vegna hruns ferðaþjónustunnar. Í Skútustaðahreppi, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi er reiknað með yfir tuttugu prósenta lækkun útsvars næstu tólf mánuði. Þar á eftir koma Reykjanesbær og Bláskógabyggð með 18 prósenta samdrátt. Byggðastofnun setur fyrirvara á matið - upplýsingar séu sífellt að breytast og óvissa sé um hvenær líf fer að færast að nýju í ferðaþjónustuna. 

Kalla eftir aðstoð frá ríkinu

Sveitarstjóri Bláskógabyggðar segir tekjur sveitarfélagsins hafa minnkað, bæði vegna minni innheimtu útsvars og vegna þess að fresta hefur þurft innheimtu fasteignagjalda hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. „Auðvitað gætu sveitarfélög farið út í það draga verulega saman og hægja á öllu. En á sama tíma er pressað á sveitarfélögin að halda uppi atvinnustigi og helst að auka framkvæmdir. Við höfum verið að horfa til þess hvort að ríkið væri til í að koma til aðstoðar. Alla vega hjá þeim sveitarfélögum sem eru að verða fyrir mestu tekjutapi,“ segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð.

„Það eru ekki mjög mörg sveitarfélög sem eru að sjá 15, 20, 25% tekjufall í útsvari. Þetta eru fá sveitarfélög og fámenn,“ segir hún jafnframt.

Erfitt að mæta samdrætti nema með lántöku

Samband íslenskra sveitarfélaga og forsvarsfólk sveitarfélaganna á nú í viðræðum við ríkið um þetta. Sveitarstjórnarráðherra fjallaði um minnisblað Byggðastofnunar á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi. „Það væri einfaldast að bæta aðeins inn í jöfnunarsjóðinn. Það er áætlað að tekjutap hans gæti orðið kannski fimm milljarðar þó að það kæmu bara 2 til 3 til baka sem að sveitarfélögin hefðu þá úr að spila,“ segir Ásta.

Ásta segir að Bláskógabyggð skuldi ekki mikið og hafi ágætistekjur af fasteignagjöldum af sumarhúsum í sveitarfélaginu. „Þetta tekur auðvitað í. Ef við erum að fara að tala um það að lækkun á útsvari sé 15-20% þá munar um það. Sveitarfélagið mun ekki geta mætt því að fullu nema mögulega með meiri lántöku,“ segir hún.